Pútín sá vandann fyrir

5600 flóttamenn fóru yfir landamæri Grikklands til Makedóníu í gær
5600 flóttamenn fóru yfir landamæri Grikklands til Makedóníu í gær AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að flóttamannavandinn í Evrópu hafi verið fyrirsjáanlegur og sé eðlilegt framhald af stefnu vesturlanda í málefnum Miðausturlanda. Hann segist hafa persónulega varað við því að þetta myndi gerast.

Þetta er meðal þess sem kom fram í ávarpi Pútíns í sjónvarpi í dag.  Rússland hefur staðið með forseta Sýrlands, Bashar al-Assad, alla tíð og styður stjórn hans með hergögnum. Á sama tíma styðja flest vesturlönd helsta stjórnarandstöðusamtökin en skæruliðasamtök eins og Ríki íslams hafa barist hatrammlega gegn þeim. Bandaríkjaher og bandamenn hafa gert ítrekaðar loftárásir á búðir skæruliða sem ráða ríkjum á stórum landsvæðum.

Stefnulaus stefna sem tekur ekki tilliti til neins

Að sögn Pútíns er stefna Evrópu gagnvart Miðausturlöndum og Norður-Afríku stefnulaus. „Hvað er það með þessa stefnu? Þetta er innleiðing á þeirra eigin mælikvörðum þar sem ekki er tekið tillit til sögu, trúarbragða, bæði þjóðar- og menningareinkenna á þessum svæðum,“ segir Pútín.  „Þessi stefna kemur fyrst frá bandamönnum vestanhafs,“ segir Pútín og sakar Evrópu um að fylgja Bandaríkjamönnum í blindni.

Hræsni fjölmiðla

Hann sakar einnig bandaríska fjölmiðla um hræsni í viðbrögðum sínum við þjáningum flóttafólks sem kemur til Evrópu, margir hverjir á flótta undan stríðinu í Sýrlandi.

„Ég horfi á með undrun hvernig einhverjir bandarískir fjölmiðlar gagnrýna Evrópu núna fyrir gegndarlausa grimmd, eins og þeir sjá það, gagnvart flóttafólkinu,“ segir Pútín.

Forsetinn ítrekaði í sjónvarpsávarpi sínu að hann væri ekki með þessu að gagnrýna með þeim orðum að Rússar vissu betur en aðrir og „hvað sagði ég,“ heldur verði að ákveða hvað gera skuli varðandi flóttamannavandann.

Bretar taka ekki við þeim sem þegar eru komnir til Evrópu

Í dag staðfesti David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, að Bretar myndu taka við fleiri flóttamönnum frá Sýrlandi en til stóð. Cameron talar um þúsundir en nefnir ekki neina ákveðna tölu, ekkert frekar heldur en flestir aðrir þjóðarleiðtogar.

Cameron segir að þessir flóttamenn muni koma til Bretlands úr búðum Sameinuðu þjóðanna við landamæri Sýrlands en ekki úr hópi þeirra flóttamanna sem þegar eru komnir til Evrópu.

Á sama tíma berast stöðugar fréttir af fólksflutningum um alla Evrópu. Í gær komu 5600 flóttamenn til Makedóníu frá Grikklandi og segir talskona flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, Melissa Flemming, ástandið hrikalegt. Makedónía er, líkt og Ungverjaland, aðeins áfangastaður á lengri leið því flestir þeirra sem þangað koma vilja komast til ríkja eins og Þýskalands sem hefur gefið sig út við að vilja taka við fleiri flóttamönnum en flest önnur ríki álfunnar.

Smyglari handtekinn á M5 hraðbrautinni milli landamæra Serbíu og höfuðborgar …
Smyglari handtekinn á M5 hraðbrautinni milli landamæra Serbíu og höfuðborgar Ungverjalands, Búdapest. AFP
Á landamærum Griklands og Makedóníu
Á landamærum Griklands og Makedóníu AFP
Flóttafólk leitt út úr bifreið smyglara
Flóttafólk leitt út úr bifreið smyglara AFP
Tjaldað á landamærunum.
Tjaldað á landamærunum. AFP
Það eru oft torfærir slóðar sem fólk þarf að fara …
Það eru oft torfærir slóðar sem fólk þarf að fara á flóttanum. AFP
Götumynd frá Aleppo - þetta er veruleikinn sem bíður flóttafólksins …
Götumynd frá Aleppo - þetta er veruleikinn sem bíður flóttafólksins heimavið. AFP
Damaskus í lok ágúst - stríðsástand síðan uppreisnin braust út …
Damaskus í lok ágúst - stríðsástand síðan uppreisnin braust út um miðjan mars árið 2011. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert