Rússar vilja viðræður um Sýrland

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Rússnesk stjórnvöld vilja hefja viðræður við Bandaríkjamenn til þess að fyrirbyggja að herir þeirra lendi ekki í átökum í Sýrlandi en Rússar hafa flutt herlið til landsins að undanförnu. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, upplýsti þetta í dag. Bandarískir ráðamenn hafa lýst áhyggjur af aukinni hernaðaraðstoð Rússa við Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.

Haft er eftir Kerry í frétt AFP að bandarísk stjórnvöld leggi nú mat á ósk Rússa. Verið sé að skoða hvaða skref sé rétt að taka í framhaldinu. Samskipti á milli Bandaríkjamanna og Rússa í hernaðarmálum hafa ekki átt sér stað síðan þeir síðarnefndu voru sakaðir í mars 2014 um að veita aðskilnaðarsinnum í Úkraínu hernaðaraðstoð. Haft er eftir talsmanni bandaríska varnarmálaráðuneytisins að engin áform séu um að taka slíkar viðræður upp á ný.

Fram kemur í fréttinni að eftir sem áður séu Bandaríkjamenn opnir fyrir hugmyndum frá Rússum um það með hvaða hætti megi taka á hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. Ekki væri hins vegar í boði að Rússar tækju þátt í árásum Bandaríkjanna og bandalagsríkja þeirra á Ríki íslams á meðan rússnesk stjórnvöld styddu Assad.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert