Hunsa barnaníð afganskra bandamanna

Bandarískir hermenn í Afganistan. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með …
Bandarískir hermenn í Afganistan. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. AFP

Bandarískir hermenn í Afganistan hafa fengið þau skilaboð frá yfirboðurum sínum að leiða hjá sér kynferðisbrot afganskra bandamanna sinna gegn börnum. Hermenn sem hafa boðið ofbeldismönnum birginn vegna barnaníðsins hafa meðal annars verið leystir frá skyldustörfum.

Misnotkun á börnum hefur verið viðvarandi vandamál í Afganistan, sérstaklega á meðal herforingja, að því er kemur fram í ítarlegri grein The New York Times sem birtist um helgina. Bandarískum hermönnum sem berjast með afgönskum herforingjum sem misnota börn hefur hins vegar verið sagt að skipta sér ekki af brotunum, jafnvel þó að þau eigi sér stað í herstöðvum, að því er kemur fram þar.

Með afskiptaleysinu vill yfirstjórn bandaríska herliðsins reyna að halda góðu samstarfi við afgönsku lögregluna og hersveitir sem Bandaríkjamenn hafa þjálfað og vopnað til að berjast gegn talibönum. Þessi stefna hefur þó sætt gagnrýni enda er mörgum bandarískum hermönnum gróflega misboðið vegna þessa framferðis afganskra bandamanna sinna.

Börðu herforingja sem hélt dreng hlekkjuðum við rúm

Einn þeirra er Dan Quinn, fyrrverandi höfuðsmaður sérsveitar í bandaríska hernum. Hann var leystur frá skyldum sínum árið 2011 eftir að hann réðist á afganskan herforingja sem hafði orðið uppvís að því að halda ungum dreng hlekkjuðum við rúmið sitt á herstöðinni og notað hann sem kynlífsþræl sinn. Herinn er enn að reyna að neyða liðþjálfann Charles Martland, sem tók þátt í árásinni á afganska herforingjann, úr hernum.

Í svari talsmanns yfirstjórnar herliðs Bandaríkjanna í Afganistan við fyrirspurn The New York Times kemur fram að kynferðisbrot afganskra her- eða lögreglumanna varði þarlend landslög. Bandarískt herlið hafi ekki beina skyldu til þess að tilkynna um þau.

Sumir bandarískir herforingjar hafa bent á að þeim hafi borist kvartanir frá heimamönnum á þeim svæðum sem afganskir lærlingar þeirra eiga að vernda vegna misnotkunar þeirra. Það gæti jafnvel hafa sett bandaríska hermenn í hættu þar sem að reiði heimamanna gæti hafa beinst að þeim vegna brotanna sem þeir láta afskiptalaus.

Því heldur Gregory Buckley eldri fram en hann er faðir undirforingjans Gregory Buckley yngri. Hann var skotinn til bana í herstöð árið 2012 ásamt fleiri bandarískum sjóliðum af 17 ára gömlum dreng sem hafði verið í þjónustu afgansks herforingja sem var þekktur fyrir að misnota drengi kynferðislega.

„Á kvöldin heyrum við þá öskra en við megum ekki gera neitt í því,“ sagði Buckley yngri í síðasta símtali sínu við föður sinn áður en árásin átti sér stað.

Buckley eldri segist sannfærður um að sú stefna bandaríska hersins að líta undan á meðan kynferðisbrot eiga sér stað hafi átt þátt í dauða sonar síns. Hann hefur höfðað mál gegn sjóhernum til þess að fá frekari upplýsingar um hvernig dauða hans bar að.

Grein The New York Times um afskiptaleysi Bandaríkjahers af kynferðisbrotum í Afganistan

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert