Hafa farið eftirlitsflug yfir Sýrland

Stjórnvöld í Sýrlandi tilkynntu á þriðjudag að þeim hefðu borist …
Stjórnvöld í Sýrlandi tilkynntu á þriðjudag að þeim hefðu borist hergögn frá Rússlandi, m.a. herþotur. Á myndinni má sjá flugstöð í Latakia, þar sem Rússar hafa verið að byggja upp herafla. AFP

Rússneskar herþotur hafa farið eftirlitsflug yfir Sýrland en hafa enn sem komið er ekki gert loftárásir á skotmörk í landinu. Þetta staðfesti talsmaður CENTCOM, þeirrar einingar bandaríska hersins sem hefur umsjón með aðgerðum gegn Ríki íslam, í dag.

Samkvæmt bandarískum hermálayfirvöldum hafa Rússar á síðustu vikum byggt upp herafla á herflugstöð í Latakia í norðvesturhluta Sýrlands á síðustu vikum, en hann telur m.a. 500 hermenn, herþotur, skriðdreka, þungavopn og ýmsan annan búnað.

Yfirvöld vestanhafs hafa ekki gefið til kynna að þau viti hvað Rússum gengur til né hvaða fyrirætlanir þeir hafa varðandi Sýrland. Stjórnmálaskýrendur gera hins vegar ráð fyrir að þeir hyggist leggja Bashar al-Assad, forseta Sýrlands og gömlum bandamanni, lið.

Pat Ryder, talsmaður CENTCOM, sagði að bandaríski herinn hefði ekki átt samræður við Rússa um málið, en Bandaríkjamenn hafa sagt að þeir myndu taka Rússum opnum örmum kysu þeir að taka þátt í aðgerðum gegn Ríki íslam.

Þau hafa hins vegar varað við því að þeir taki afstöðu með Assad, með því að ráðast gegn uppreisnarmönnum. „Ef Rússar gripu til aðgerða gegn þeim hópum í stað þess að ráðast gegn Ríki íslam, þá væri það eitthvað sem við myndum hafa verulegar áhyggjur af,“ sagði Ryder.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert