Fjölmargir fastir í rústum húsa

Fjöldi látinna eftir harðan jarðskjálfta í Suður-Asíu í dag er komin upp í 180. Yfir þúsund eru slasaðir en skjálftinn fannst í Afganistan, Pakistan og Indlandi. Upptök hans voru nálægt Jurm í norðausturhluta Afganistan, í um 250 kílómetra fjarlægð frá Kabúl. Hann mældist 7,5 stig.

„Nákvæmar tölur um fjölda látinna liggja ekki fyrir því símasamband liggur niðri,“ sagði Abdullah Abdullah, ríkisstjóri í Afganistan, í samtali við AFP. Að sögn Abdullah eru skemmdirnar miklar í Badakhshan, Takhar, Nangarhar, Kunar og Kabúl.

Að sögn ríkisstjóra Badakhshan, Shah Wali Adib, eru að minnsta kosti 1.500 hús skemmd eða ónýt í héraðinu. Upptök skjálftans eru skammt frá upptökum skjálfta sem skók svæðið í október 2005. Sá var 7,6 stig og létu 75.000 lífið í honum. 3,5 milljónir misstu heimili sín.

Skjálftinn í dag stóð yfir í minnsta kosti eina mínútu. Einn eftirskjálfti varð fljótlega eftir það og var hann 4,8 stig.

Arbab Muhammad Asim, borgarstjóri pakistönsku borgarinnar Peshawar, segir að minnsta kosti 100 manns hafi slasast þar. „Mörg hús og byggingar hafa hrunið í skjálftanum,“ bætti hann við.

Að sögn Muhammads Sadiq, sem er yfir björgunaraðgerðum í Peshawar, eru enn fjölmargir fastir í rústum húsa sinna.

Veitingahús og skrifstofur tæmdust í Islamabad þar sem sjá mátti sprungur í mörgum húsum. Ekki var þó tilkynnt um alvarlegar skemmdir í borginni. Neðanjarðarlestarkerfi Nýju-Delhi lamaðist eftir skjálftann en starfsemi flugvallarins hélt áfram. 

Hér fyrir neðan má sjá upptöku afganskrar fréttastöðvar sem var með fréttatíma í beinni útsendingu þegar skjálftinn reið yfir. 

زمین لرزه امروزی شهر کابل

تصاویر زلزله امروزی شهر کابل ( استدیوی مرکزی آریانا نیوز)

Posted by ArianaNews on Monday, October 26, 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert