Fá aðeins að taka með sér handfarangur

Ferðatöskur fólksins verða fluttar til Bretlands í sérstökum ferðum.
Ferðatöskur fólksins verða fluttar til Bretlands í sérstökum ferðum. AFP

Flugferðir frá egypska ferðamannastaðnum Sharm el-Sheikh til Bretlands munu hefjast að nýju á morgun. Farþegum verður þó aðeins heimilt að taka með sér handfarangur vegna öryggisástæðna. Sky News segir frá þessu.

Bresk yfirvöld létu fresta öllum flugferðum til og frá ferðamannastaðnum í gær vegna rannsóknar á brotlendingu rússnesku farþegaþotunnar á Síníaskaga um helgina. Sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands það „líklegra en ekki“ að þotan hafi brotlent vegna sprengingar.

Rúmlega 20 flugferðir munu fara frá Sharm el-Sheikh á morgun en talið er að allt að 20 þúsund Bretar hafi verið strandaglópar þar síðan í gær. Annar farangur en handfarangur verður fluttur sérstaklega til Bretlands.

„Við erum að vinna með flugfélögunum til þess að fólk fái farangurinn sinn eins fljótt og auðið er,“ var haft eftir talsmanni bresku ríkisstjórnarinnar í dag.

Ferðamenn bíða fregna á flugvellinum í Sharm el-Sheikh
Ferðamenn bíða fregna á flugvellinum í Sharm el-Sheikh AFP
Brak úr Airbus A321 þotunnar í Hassana fjöllum á Sínaí-skaga.
Brak úr Airbus A321 þotunnar í Hassana fjöllum á Sínaí-skaga. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert