Ríki íslams ítrekar ábyrgð sína

AFP

Rússnesk og egypsk stjórnvöld hafa hvatt til þess að farið verði varlega með tillögur þess efnis að farþegaþota Metrojet hafi verið sprengd í loft upp. Bæði breskir og bandarískir embættismenn greindu frá því í gær að í ljósi nýrra upplýsinga væri það mögulegt að sprengju hefði verið komið fyrir í flugvélinni. BBC segir frá þessu.

Utanríkisráðuneyti Rússlands sagði jafnframt í dag það „áfall“ að Bretar hafi ekki deilt með þeim þessum upplýsingum með Rússum. Bretar frestuðu í gær öllum flugferðum frá ferðamannastaðnum Sharm el-Skeikh en þotan var á leið þaðan til Sankti Pétursborgar þegar hún hrapaði á Síníaskaga á laugardaginn.

Ríki íslams eða ekki?

Vígamenn Ríkis íslams hafa haldið því fram að þeir beri ábyrgð á brotlendingunni. Allir 224 um borð létu lífið þegar þotan hrapaði aðeins 23 mínútum eftir flugtak.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði í dag að „vitneskja og upplýsingar“ sem ríkisstjórn hans hefði aðgang að gæfi til kynna að það væri „líklegra en ekki“ að sprengja hafi brotlent vélinni.

Hann og Vladimir Pútin, forseti Rússlands, ræddu saman í síma í dag.

Forseti Egyptalands, Abdel Fattah al-sisi er nú í sinni fyrstu opinberu heimsókn í Bretlandi. Hann sagði í dag að egypsk yfirvöld væru tilbúin til þess að starfa með „öllum okkar vinum“ í því að tryggja öryggi á flugvellinum í Sharm el-Sheikh.

Sagði hann jafnframt að breskir sérfræðingar hefðu rannsakað öryggismál á flugvellinum fyrir tíu mánuðum síðan án athugasemda.

Cameron sagði jafnframt að löndin tvö ynnu nú náið saman og starf hans væri að „gera það rétta“ til þess að tryggja öryggi breskra ríkisborgara.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams greindi frá því í annað skiptið í gær að þau bæru ábyrgð á brotlendingunni. „Við komum henni niður með hjálp Guðs, en við þurfum ekki að gefa upp hvaða tæki við notuðum,“ sagði í hljóðupptöku frá samtökunum sem hefur verið deilt á samfélagsmiðlum.

Fleiri flugfélög aflýsa ferðum

Þýska flugfélagið Lufthansa greindi frá því í dag að dótturfélög þeirra Edelweiss og Eurowings muni ekki fljúga til Sharm el-Sheikh í bili vegna öryggisráðstafana. Þau munu starfa með þýska utanríkisráðuneytinu og fulltrúum ferðaþjónustunnar við að koma viðskiptavinum þeirra sem eru á staðnum heim. Belgíska flugfélagið Jetairfly frestaði einnig ferðum sínum frá Brussel til bæjarins næsta sólarhringinn á meðan öryggisstaðan er skoðuð. Hollensk yfirvöld hafa þar að auki varað borgara sína við því að ferðast til og frá flugvellinum í Sharm el-Sheikh.

Forseti Egyptalands, Abdel Fattah al-Sisi og David Cameron forsætisráðherra Bretlands …
Forseti Egyptalands, Abdel Fattah al-Sisi og David Cameron forsætisráðherra Bretlands funduðu við Downing stræti í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert