11.000 Rússum flogið heim

Vélin fórst á Sínaískaga 31. október sl.
Vélin fórst á Sínaískaga 31. október sl. AFP

Undanfarinn sólahring hafa rússnesk yfirvöld flogið um 11.000 ferðamönnum heim frá Egyptalandi og er von á að fleiri muni snúa aftur til síns heima í dag. Rússar greindu frá því á föstudag að þeir hefðu ákveðið að aflýsa öllum flugferðum til Egyptalands eftir að rússnesk farþegaþota fórst þar.

Vélin hrapaði til jarðar á Sínaískaga. Í upphafi vísuðu rússnesk stjórnvöld því á bug að sprengja hefði grandað vélinni. 

Rússar hafa skipulagt fjölmargar flugferðir til að sækja ferðamenn sem vilja komast aftur til heimalandsins. Talið er að um 80.000 rússneskir ferðamenn hafi verið staddir í Egyptalandi þegar yfirvöld í Moskvu ákváðu að aflýsa öllum flugferðum til og frá landinu. 

Farþegum hefur verið flogið heim án farangurs.

Fram kemur á vef BBC, að athöfn hafi farið fram í St. Pétursborg í Rússlandi þar sem þeirra var minnst sem létust þegar farþegavélin fórst. Alls voru 224 um borð og komst enginn lífs af. Meirihlutinn var frá Rússlandi. 

Unnið er að rannsókn málsins, en einn rannsakenda hefur látið hafa eftir sér að menn telji mjög líklegt að sprengjuhljóð heyrist á upptöku flugrita vélarinnar, en talið er að sprengja hafi sprungið um borð í vélinni.

Ayman al-Muqaddam, sem fer fyrir rannsókninni, sagði hins vegar í gær að það væri í raun of snemmt að segja nokkuð um tildrögin á þessu stigi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert