Minnast árásanna í sérstakri útgáfu

Franska ádeiluritið Charlie Hebdo mun minnast árásarinnar á ritstjórn blaðsins fyrir ári síðan með sérstakri útgáfu. Á forsíðunni verður mynd af skeggjuðum manni vopnuðum Kalashnikov-riffli undir fyrirsögninni: Einu ári síðar gengur launmorðinginn enn laus.

Það var að morgni 7. janúar í fyrra sem bræðurnir Cherif og Said Kouachi réðust inn á skrifstofu Charlie Hebdo og drápu tólf manns, þar af átta starfsmenn á ritstjórn blaðsins.

AFP

Alls verða prentuð milljón eintök af blaðinu og það selt í Frakklandi og víðar. Í blaðinu verður að finna safn skopteikninga fimm listamanna sem störfuðu á ritstjórn Charlie Hebdo en voru myrtir í árásinni. Eins verða birtar teikningar eftir fleiri listamenn í blaðinu.

Listamaðurinn Laurent Sourisseau, sem tók við ritstjórn blaðsins eftir árásina, skrifar einnig harðorðan leiðara í blaðið til varnar frelsi í trúmálum. Sourisseau, sem gengur undir nafninu Riss, slapp naumlega frá árásinni fyrir ári en hann særðist alvarlega.

AFP

Mánuði áður en árásin var gerð á Charlie Hebdo munaði litlu að útgáfu blaðsins yrði hætt vegna þess að salan hafði dregist verulega saman og nam salan tæplega 30 þúsund eintökum undir lok árs 2014. En fyrsta blaðið eftir árásirnar seldist í yfir 7,5 milljónum eintaka og yfir 200 þúsund gerðust áskrifendur.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert