Svíar viðurkenna ekki Vestur-Sahara

Utanríkisráðherrann Margot Wallström. Jafnaðarmenn hafa tekið algjöra u-beygju í málinu.
Utanríkisráðherrann Margot Wallström. Jafnaðarmenn hafa tekið algjöra u-beygju í málinu. AFP

Stjórnvöld í Svíþjóð hafa ákveðið að viðurkenna ekki Vestur-Sahara sem sjálfstætt ríki, þrátt fyrir að hafa stutt það árið 2012. Það var utanríkisráðherrann Margot Wallström sem tilkynnti ákvörðunina, sem þykir líkleg til að treysta sambandið við Marokkó.

Málið hefur verið til skoðunar í nokkra mánuði en ákvörðunin mun valda aðskilnaðarsinnum Polisario Front vonbrigðum. Þeir hafa barist fyrir sjálfstæði svæðisins, sem Marokkó gerir kröfu til, frá 1973.

Wallström sagði að nú yrði lögð áhersla á að styðja það ferli sem er í gangi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og miðar að því að miðla málum milli aðila. Hún sagði að viðurkenning á sjálfstæði Vestur-Sahara myndi ekki hjálpa til í því ferli og að málið væri ólíkt öðrum þar sem stjórnvöld hefðu ákveðið að viðurkenna sjálfstæðisyfirlýsingar ríkja.

Um er að ræða u-beygju fyrir Jafnaðarmenn sem samþykktu ályktun árið 2012 þar sem stjórnvöld voru hvött til að viðurkenna Vestur-Sahara sem frjálst og sjálfstætt ríki. Þeir voru þá í stjórnarandstöðu og þáverandi stjórn hafnaði tillögunni.

Jafnaðarmenn tóku við völdum í október 2014, ásamt Græningjum sem einnig studdu ályktunina, en nú virðast stjórnvöld vera hikandi við að verða fyrsta ríki Evrópusambandsins til að taka þetta skref.

Málið hefur valdið nokkurri spennu milli Svíþjóðar og Marokkó en fjölmiðlar sögðu m.a. frá því í fyrra að ákvörðun yfirvalda um að koma í veg fyrir opnun fyrstu Ikea-verslunarinnar í landinu mætti rekja til þessa.

Marokkó tók yfir stjórn stærsta hluta umrædds landsvæðis í nóvember 1975, þegar yfirráðum Spánar lauk, en þó hófst styrjöld sem stóð yfir til 1991. Síðan þá hefur vopnahlé ríkt milli Marokkó og Polisario Front en stjórnvöld í Rabat hafa hafnað tillögum SÞ um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð svæðisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert