Brakið er ekki úr MH370

Starfsmaður ráðuneytisins tekur mynd af brakinu.
Starfsmaður ráðuneytisins tekur mynd af brakinu. AFP

Yfirvöld í Malasíu staðfestu í dag að stórt málmstykki sem fannst á suðurströnd Taílands síðastliðinn föstudag er ekki brak úr flugvél Malaysia Airlines flight MH370.

Samgönguráðuneyti Malasíu sagði lið sérfræðinga á vegum yfirvalda og flugfélagsins hafa rannsakað málmstykkið.

„Útfrá nákvæmri skýrslu þeirra hafa þeir gengið í skugga um að raðnúmer stykkisins, víraknippis númerið og rónaglanúmerið passi ekki við Boeing 777,“ sagði í tilkynningu ráðuneytisins.

239 manns voru um borð í vélinni sem hvarf 8. mars 2014 á leið frá Kúala Lúmpúr til Peking. Rannsakendur telja vélina hafa hafnað í afskekktum hluta Indlandshafs en ástæða hvarfsins er enn óráðin gáta.

Eina merkið um vélina sem fundist hefur er brak sem fannst í júlí á eyjunni Reunion, þúsundir kílómetra frá Taílandi.

Í gær sagði fyrirtækið Mitsubishi Heavy Industries að brakið sem fannst í Taílandi hefði raðnúmer sem gæfi til kynna að það væri úr eldflaug sem fyrirtækið notaði við að skjóta gervitunglum á loft.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert