Evrópusambandið ekki „matseðill“

Evrópusambandið er ekki matseðill sem hægt er að velja bestu bitana af en sleppa sleppa hinu. Þetta kom fram í máli Martins Schulz, forseta Evrópuþingsins, í ræðu sem hann flutti í London School of Economics í dag. Vísaði hann þar til viðræðna breskra stjórnvalda við Evrópusambandið um breytta skilmála fyrir veru Bretlands í sambandinu.

Fram kemur í frétt AFP að Schulz hafi tekið vel í hugmyndir Breta um að gera Evrópusambandið samkeppnishæfara en sagði aðrar kröfur breskra stjórnvalda setja hættuleg fordæmi um að ríki gætu valið að taka ekki þátt í þeim hlutum sambandsins sem þeim líkaði ekki. Sagði hann að hugmyndir Breta ættu eftir að verða fyrir andstöðu í Evrópuþinginu. Hvatti hann Breta til þess að vera áfram í Evrópusambandinu en boðað hefur verið til þjóðaratkvæðis í Bretlandi um veruna í sambandinu sem gæti hugsanlega farið fram í sumar.

Schulz gagnrýndi meðal annars kröfu Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands, um að viðurkennt væri að fleiri en einn gjaldmiðill væri til staðar innan Evrópusambandsins. Skýrt kæmi fram í sáttmálum sambandsins að evran væri gjaldmiðill þess. Ekki væri heldur ásættanlegt að ríki Evrópusambandsins utan evrusvæðisins fengju ígildi neitunarvalds vegna ákvarðana svæðisins. Slíkt gæti lamað evrusvæðið. Varðandi frjálsa för fólks innan sambandsins væri ekki í boði að mismuna íbúum þess á grundvelli þjóðernis.

Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins.
Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert