Brotthvarf þýðir frumskóg í Dover

AFP

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að ef Bretar yfirgefi Evrópusambandið geti það þýtt að flóttamannabúðir muni spretta upp víða í suðausturhluta Englands. Eins aukist hættan á hryðjuverkum. 

Í frétt Telegraph kemur fram að Cameron ætli að gera þjóðaröryggismál að miðpunkti baráttu sinnar fyrir því að Bretland verði áfram hluti af Evrópusambandinu.

Hann telur að ef Brexit verður að raunveruleika muni Frakkar segja upp samkomulagi sem felur meðal annars í sér heimild breskra yfirvalda til að taka þátt í eftirliti í flóttamannabúðunum í Calais, Frakklandsmegin við Ermarsundið. Búðirnar nefnast Frumskógurinn (Jungle).

Heimildir Telegraph herma að Cameron muni hefja umræðuna um varnarmál nokkrum dögum eða vikum eftir að hann hefur tilkynnt dagsetningu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Með Cameron í baráttunni er Theresa May innanríkisráðherra, en ákvörðunar hennar hefur verið beðið - það er hvort hún styður brotthvarf eða veru í ESB.

Cameron mun meðal annars fjalla um að ef Bretland er áfram í ESB sé auðveldara að verjast árásum eins og Parísarbúar upplifðu í fyrra á götum Bretlands. 

Samkvæmt Le Touquet-samkomulaginu frá árinu 2003 milli Bretlands og Frakklands hefur Bretland heimild til þess að annast landamæraeftirlit innan Frakklands í stað þess að það fari fram Bretlandsmegin. Það þýðir að eftirlitið með flótta- og förufólki sem laumast yfir landamærin með flutningabílum og lestum fer fram í Calais, ekki Dover. Ef Bretar ganga úr ESB munu Frakkar hætta að heimila breskum yfirvöldum að vera með eftirlit í Calais og það flyst til Dover. Það myndi þýða að búðir eins og Jungle yrðu að veruleika þar. Frakkar yrðu dauðfegnir að losna við vandann sem fylgir flótta- og förufólkinu yfir til Bretlands.

Nýjar búðir í Grande-Synthe skammt frá Dunkirk.
Nýjar búðir í Grande-Synthe skammt frá Dunkirk. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert