Ítalir taka upp ferðamannapassa

Cinque Terre
Cinque Terre Ferðamannavefur Cinque Terre

Ítölsk yfirvöld ætla að draga úr straumi ferðamanna sem heimsækja Cinque Terre fiskiþorpin á ríveríunni með því að selja aðgang að þorpunum. Um er að ræða ferðamannapassa sem keyptir eru á netinu.

Í Sunnudagsmoggnum í fyrra sagði svo um þorpin fimm sem eru á heimsminjaskrá UNESCO: Á ítölsku rívíerunni má finna fimm ævintýralega falleg lítil fiskiþorp sem kúra hátt í hlíðum hrjóstugra kletta. Þar eru húsin máluð í öllum regnbogans litum og göturnar eru þröngar og brattar, enda ekki ætlaðar bílum. Þessi fimm þorp sem um ræðir eru saman nefnd Cinque Terre, eða „Löndin fimm“, en þau heita Monterosso al Mare, Vernazza, Corniglia, Manarola og Riomaggiore. Heimamenn lifa á fiskveiðum og ferðamennsku og er sagt að ástæðan fyrir litagleði þorpsbúa sé sú að sjómennirnir vildu geta séð húsið sitt utan af hafi. Í þorpunum má finna fallegar kirkjur, gönguleiðir, dásamlegan mat og vín, tæran sjó og ótrúlega veislu fyrir augað.

Cinque Terre
Cinque Terre Af vef Wikipedia

Þessi litlu litríku þorp eru vinsæll áfangastaður ferðamanna enda bæði falleg og rómantísk. Göngustígar liggja á milli þorpanna og er vinsælt að eyða deginum í að rölta milli bæja, njóta dásamlegs útsýnis og staldra við og fá sér snarl eða ekta ítalskan ís í þorpunum á leiðinni. Gönguleið liggur í gegnum öll þorpin sem kallast Sentiero Azzurro og tengir hann saman þorpin fimm.

Ástæðan fyrir því að ítölsk yfirvöld hafa tekið ákvörðun um að takmarka aðgengi ferðamanna er sú að óttast er um afdrif svæðisins vegna ágangs ferðamanna. Um 2,5 milljón ferðamanna komu þangað í fyrra og segja íbúar að farþegar á skemmtiferðaskipum sem koma í dagsferðir séu að taka yfir svæðið.

Cinque Terre
Cinque Terre Ferðamannavefur Cinque Terre

Yfirmaður Cinque Terre svæðisins, Vittorio Alessandro, segir í samtali við ítalska dagblaðið la Repubblica að 1,5 milljón ferðamanna fái að koma þangað í ár.  

Í frétt Guardian kemur fram að sérstakur búnaður verði settur upp við þjóðveginn til þess að telja fjölda þeirra sem koma þangað. Þegar ákveðnum fjölda er náð verður svæðinu einfaldlega lokað. Hægt verður að kaupa miða á netinu og eins verður hægt að fylgjast með fjöldanum í smáforriti í snjalltækjum þannig að fólk geti séð hvort það eigi að koma á svæðið eður ei.

Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert