Fyrrverandi sjóliði tekinn af lífi

Travis Hittson
Travis Hittson Fangelsismálayfirvöld í Georgíu

Fyrrverandi sjóliði var tekinn af lífi í Georgíu í nótt fyrir morð á félaga sínum í bandaríska sjóhernum. 

Travis Hittson, 45 ára, var dæmdur til dauða fyrir morð á skipsfélaga sínum Conway Utterbeck árið 1992. Aftakan fór fram í fangelsi skammt frá Jackson og var Hittson úrskurðaður látinn klukkan 20:14 (klukkan 01:14 að íslenskum tíma). Hann var tekinn af lífi með banvænni lyfjablöndu.

Dómur í máli Hittson var kveðinn upp í febrúar 1993 en Hittson dæmdur fyrir morð, þjófnað, líkamsárás og ólöglegan vopnaburð.

Samkvæmt dómskjölum fór Hittson, sem var þá staðsettur í herstöð í Pensacola í Flórída, ásamt félaga sínum úr hernum, Edward Vollmer, á heimili foreldra Vollmers í Warner Robins, Georgíu. Hittson og Vollmer fóru á barrölt og drápu Utterbeck á leiðinni heim um nóttina. Þeir sundurlimuðu síðan líkið með sög. Lögfræðingur Hittsons reyndi að fá vægari refsingu fyrir skjólstæðin sinn og sagði að Vollmer hafi spilað með hann og platað hann til þess að fremja morð. Vollmer samdi við saksóknara og játaði sök. Hann afplánar lífstíðardóm fyrir sinn hlut.

Lögmenn Hittsons hafa ítrekað reynt að fá dauðadómi yfir skjólstæðingi sínum hnekkt og vísað til greindarskerðingar hans, áfengissýki og örvæntingarfulla þörf hans fyrir viðurkenningu sem Vollmers hafi nýtt sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert