Vörpuðu 21 tonni af neyðarbirgðum

Bílalest á leið með birgðir í Sýrlandi. Mynd úr safni.
Bílalest á leið með birgðir í Sýrlandi. Mynd úr safni. AFP

Flugvél WFP (World Food Programme) varpaði 21 tonni af neyðarbirgðum niður til almennra borgara í sýrlensku borginni Deir al-Zour. Liðsmenn Ríkis íslams hafa setið um borgina.

Stephen O‘Brien, fulltrúi Sameinuðu þjóðanna, sagði í dag að birgðunum hafi verið varpað á svæði undir stjórn hersins. Að sögn Sameinuðu þjóðanna búa 200.000 borgarar í herkví í Deir al-Zour.

Í nýlegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna kom fram að ástand þeirra sem fastir eru á svæðunum sem setið er um fari versnandi og eru til dæmi um alvarlega vannæringu og að fólk hafi soltið í hel.

Í síðustu viku fóru rúmlega 100 vörubílar með mat og aðrar nauðsynjar til 80.000 almennra borgara á fimm stöðum í Sýrlandi sem setið hefur verið um. Tvær aðrar bílalestar voru sendar af stað í gær.

Starfsmenn Rauða hálfmánans í Sýrlandi staðfestu fyrr í dag að birgðirnar hefðu náð á áfangastað í Deir al-Zur. Fréttaritari BBC hjá Sameinuðu þjóðunum, Nick Bryant, sagði fallhlífaaðflutning eins og þennan yfirleitt aðeins notaðan sem neyðarúrræði. Frekar væri reynt að notast við vörubíla.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að rúmlega 480.000 Sýrlendingar búi á svæðum sem setið er um í Sýrlandi og að aðrar fjórar milljónir búi á svæðum þar sem erfitt er að veita hjálp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert