Tveir morðingjar teknir af lífi

Aftaka í Íran en í Japan voru tveir fangar hengdir …
Aftaka í Íran en í Japan voru tveir fangar hengdir í morgun Amnesty International

Tveir fangar dæmdir fyrir morð voru teknir af lífi í dag í Japan. Fólkið, karl og kona, voru hengd en alls hafa 16 fangar verið teknir af lífi í Japan frá því Shinzo Abe forsætisráðherra komst til valda árið 2012. Fjölmargar mannréttindahreyfingar reyndu að berjast gegn aftökunum í Japan án árangurs.

Junko Yoshida, 56 ára að aldri, myrti tvo karla á tíunda áratugnum en morðin voru hluti af áætlun um að ná út tryggingafé. Hún er fimmta konan sem er tekin af lífi í meira en sextíu ár í Japan.

Yasutoshi Kamata, 75 ára,  var dæmdur fyrir morð á fjórum konum á árunum 1985 og 1994 og níu ára gamalli stúlku sem barðist gegn honum þegar hann reyndi að nauðga henni. 

Dómsmálaráðherra Japans, Mitsuhide Iwaki, sem fyrirskipaði aftökurnar, segir að þau hafi framið hryllilega glæpi þar sem þau tóku líf fórnarlamba sinna af mjög sjálfselskri ástæðu.

Japan og Bandaríkin eru einu lýðræðisríkin í heiminum sem enn taka fanga af lífi í refsingarskyni. Amnesty International gagnrýnir aftökurnar harðlega. Ekki síst fyrir þær sakir að á meðan flest ríki taka sífellt færri af lífi þá fjölgar aftökunum á Japans.

Mikill meirihluti almennings í Japan styður dauðarefsingar. Í Japan er sá háttur hafður á að fangar bíða kannski árum saman eftir aftökunni en þegar að henni kemur fá þeir aðeins nokkrar klukkustundir til þess að undirbúa sig undir það sem koma skal - dauðann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert