Eyðileggingin í Ekvador úr lofti

Kraftmesti jarðskjálfti sem orðið hefur í Ekvador í áratugi hefur kostað 350 manns lífið. Enn er tuga saknað og björgunarmenn reyna í kapphlaupi við tímann að finna fólk á lífi í rústum húsa.

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá hina gríðarlegu eyðileggingu eftir skjálftann úr lofti.

Björgunarmennirnir leggja sig sjálfa í lífshættu við leitina. Hús sem eru að hruni komin eða hálfhrunin, eru stórhættuleg. En í þeim þarf að leita lífs. Vitað er að þúsundir slösuðust og alveg víst að fleiri munu finnast látnir.

En vonin heldur björgunarmönnum við efnið. 

Verst er ástandið á strandsvæðunum sem voru næst upptökum skjálftans sem mældist 7,8 stig.

Í strandbæjum, á vinsælum ferðamannastöðum, hrundu hótel til grunna og mörg hundruð gestir þeirra eru taldir fastir í rústunum. 

Heilu bæirnir jöfnuðust hreinlega við jörðu, svo öflugur var skjálftinn. Eftirskjálftar fylgdu og eyðileggingin jókst enn frekar.

Í bænum Portoviejo, sem er í um 15 km fjarlægð frá ströndinni, brustu veggir fangelsis og um 100 fangar nýttu tækifærið og hlupu út í frelsið. Það tókst að handsama suma, en aðrir eru enn á flótta. Bærinn varð mjög illa úti í skjálftanum og þefur af rotnandi líkum fyllir loftið í hitanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert