1.700 manns enn leitað

Leitarmenn bera lík úr rústunum í dag.
Leitarmenn bera lík úr rústunum í dag. AFP

1.700 manns eru enn ófundnir í rústunum eftir jarðskjálftann sem skók Ekvador fyrir þremur dögum síðan. Skjálftinn var 7,8 stig og hafði hann mestu áhrifin á strandbæi við Kyrrahafið sem eru vinsælir meðal ferðamanna. Að minnsta kosti 480 létu lífið.

Björgunaraðilar leita í rústum með hjálp leitarhunda í strandbæjunum Pedernales og Manta. Fnykurinn af rotnandi líkum verður þó stöðugt sterkari undir heitum geislum sólarinnar.  

Alþjóðlegar björgunarsveitir reyna nú að hjálpa fórnarlömbum skjálftans en með hverri klukkustund verður það ólíklegra að finna fólk á lífi í rústunum. Eins og fyrr segir er 1.700 manns leitað en 2.560 slösuðust í skjálftanum.

Íbúar Manta voru orðnir örvæntingafullir í dag. „Björgunaraðgerðir hafa verið mjög hægar og fólk hefur dáið. Við ættingjarnir höfum verið að bíða síðan á laugardagskvöldið,“ sagði Pedro Merro, en frænka hans er föst undir rústum þriggja hæða markaðar í borginni.

Þá sagðist Luis Felipe Navarro vera viss um að fólk væri á lífi í rústum byggingar sem hann á. „Ég hef fengið skilaboð í símann minn. Þau segjast vera tíu talsins ofan í holu,“ sagði hann. „En björgunaraðilar vilja ekki hlusta á mig.“

Mörg hundruð leitarmenn frá Kólumbíu, Mexíkó, El Salvador, Spáni og fleiri löndum hafa komið á staðinn og ráða stjórnvöld í landinu varla við mannfjöldann.

Þá er óttast um örlög þeirra sem misstu heimili sín í skjálftanum en þau búa nú við hættulegar aðstæður, umkringd moskító flugum sem bera sjúkdóma, og drekkandi skítugt vatn.

Í samtali við AFP sagði slökkviliðsstjórinn Freddy Arca að nú væru í gangi aðgerðir til að bjarga tveggja mánaða gamla barni. „Við vitum að þarna inni er maður, kona og tveggja mánaða barn þeirra,“ sagði Arca og benti í áttina að rústum hótels í Matna. „Það gætu verið allt að níu aðrir þarna inni.“

Að sögn UNICEF hefur skjálftinn haft áhrif á líf allt að 150.000 barna.

Í Manta mátti jafnframt sjá tvær grátandi konur ganga við rústir fyrrnefnds hótels. „Bróðir minn Irvin er undir rústunum“ sagði Samantha Herrera í samtali við fjölmiðla. „Slökkviliðsmennirnir mættu bara í morgun. Ekvador er ekki tilbúið til að takast á við svona stórslys.“

Björgunaraðilar segjast heyra hljóð úr einhverjum undir rústunum. Arca skipaði grennstu meðlimum teymisins sem hann stjórnar til þess að reyna að komast að þeim. Maðurinn kom upp fölur en hann hafði fundið tvö lík. „En við heyrum enn hljóðin,“ sagði Arca.

Forseti Ekvador, Rafael Correa, ræðir við fólk sem hefur þurft …
Forseti Ekvador, Rafael Correa, ræðir við fólk sem hefur þurft að flýja heimili sín í Manta, AFP
Bærinn Pedernales kom hvað verst úr skjálftanum á laugardaginn.
Bærinn Pedernales kom hvað verst úr skjálftanum á laugardaginn. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert