Leita enn fólks í húsarústum

Björgunarsveitarmaður leitar að fólki í húsarústum í borginni Jama.
Björgunarsveitarmaður leitar að fólki í húsarústum í borginni Jama. AFP

Ríkisstjórn Ekvadors segir nú að minnsta kosti 413 manns séu látnir eftir jarðskjálftann sem skók landið aðfaranótt sunnudags. Leit stendur enn yfir að fólki í húsarústum en auk hinna látnu eru um 2.500 slasaðir eftir jarðskjálftann. Forseti landsins segir kostnað við uppbygginguna munu hlaupa á milljörðum dollara.

Sex manns var bjargað úr rústum hótels nærri strandbænum Manta seint í gær, þar á meðal tveimur telpum, annarri þeirra eins árs og hinni níu ára.

Í sjónvarpsávarpi sagðist Rafael Correa, forseti Ekvadors, óttast að tala látinna muni hækka enn eftir því sem rústir bygginga eru ruddar. Lífsmark sé hins vegar enn að finna í rústunum og það hafi verið sett í forgang.

Samtök Ameríkuríkja ætla að veita fé úr neyðarsjóði þeirra til Ekvadors til að hjálpa til við uppbyggingu landsins eftir hamfarirnar, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Sterkir eftirskjálftar hafa riðið yfir vesturhluta landsins í gær. Stærsti eftirskjálftinn var 5,1 að stærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert