„Núna á þetta fólk ekkert“

Ljósmynd/Hildur Valsdóttir

Íslensk kona sem er stödd í bænum Canoa í Ekvador segir ástandið hræðilegt eftir að skjálfti upp á 7,8 stig skók landið. Canoa er í 90 km fjarlægð frá upptökum skjálftans. Hún hefur nú hafið söfnun til styrktar fórnarlambanna en hún flakkar á milli Canoa og höfuðborgarinnar Quito til þess að útvega neyðarvistir. 

„Það er svakaleg eyðilegging en Canoa er einn af stöðunum sem fór verst,“ segir Hildur Valsdóttir í samtali við mbl.is og bætir við að um það bil 90% af byggingunum í bænum séu ónýtar.

Frá Canoa
Frá Canoa Ljósmynd/Hildur Valsdóttir

„Þetta er hræðilegt ástand, ekki bara vegna þess að fólk er búið að missa fjölskyldumeðlimi, vini og allt sem það á, heldur líka vegna þess að þetta samfélag er háð túristum til að þéna pening og það verður ekki komið aftur á ról fyrr en að það er búið að hreinsa upp staðinn og byggja hann upp á nýtt,“ segir Hildur.

Hún segir að fólk í bænum hafi misst allt og viti ekki hvort það hafi nægan mat og vatn fyrir morgundaginn. „Allir vona bara það besta,“ segir Hildur.

Var viss um að hún myndi deyja

Þegar að fyrsti og stærsti skjálftinn reið yfir var Hildur ekki heima hjá sér heldur en í heimsókn hjá vinum á hóteli tveimur kílómetrum fyrir utan Canoa. Sem betur fer, segir Hildur en húsið hennar hrundi í skjálftanum.

Hildur lýstir upplifuninni sem skelfilegri en skyndilega byrjaði allt að hristast og hlutir að detta niður af veggjunum. Þá sá hún sprungur byrja að myndast í veggjunum

„Fyrsti skjálftinn stóð í 50 sekúndur, lengstu 50 sekúndur sem ég hef upplifað,“ skrifaði Hildur á Facebook síðu sína á miðvikudaginn. „Ég hugsaði að þetta væri endirinn, ég hugsaði að ég myndi ekki ná að verða 30 ára í enda mánaðarins. Ég var viss um að núna myndi ég deyja.“

Um 90% af byggingunum í bænum eru ónýtar.
Um 90% af byggingunum í bænum eru ónýtar. Ljósmynd/Hildur Valsdóttir

„Núna á þetta fólk ekkert“

Hildur er búin að vera í Canoa í þrjá mánuði en hún kom til Ekvador til að undirbúa sig fyrir upptökupróf fyrir skóla erlendis til að geta haldið áfram í læknisfræði. „En ég ákvað svo að taka mér árs pásu því mér líkaði svo vel hér, og mig langaði að læra spænskuna almennilega,“ útskýrir Hildur. „Ég valdi Canoa vegna þess að ég „surfa“ og Canoa er fullkominn staður fyrir það. Og svo er þetta líka ótrúlega fallegur staður með vinalegu fólki sem tók mig strax inn í samfélagið eins og hluta af fjölskyldunni. Ég er búin að eignast ótrúlega marga góða vini hérna á þessum tíma sem hafa stutt mig mikið, og núna á þetta fólk ekkert, það er búið að missa allt. Svo það kemur ekki til greina fyrir mig að fara eitt né neitt fyrr en að ég veit að þetta litla samfélag eigi von fyrir framtíðina. Svo ég verð hérna allavega fram í október að ég held.“

Þegar að blaðamaður náði tali af Hildi í gærkvöldi var hún í borginni Quito til þess að sækja vörur til þess að fara með aftur til Canoa. Hildur heldur úti söfnun fyrir fórnarlömb skjálftans en hún notar peningana til að kaupa nauðsynjar fyrir fólkið.

„Ég kom hingað til að kaupa nauðsynjar fyrir fólkið á jarðskjálftasvæðinu, helst í Canoa og í litlu þorpunum í kring. Ég er búin að fá ótrúleg viðbrögð heimafrá, bæði Íslandi og Noregi, og ég er ótrúlega þakklát fyrir það. Ég er búin að versla nauðsynjar fyrir 200 fjölskyldur sem við förum með eins og bleyjur, klósettpappír, vatn, matur, eldspýtur, sápu og sótthreinsivökva. Það kom inn meiri peningur í nótt svo núna er ég búin að senda nokkra aðila af stað til þess að kaupa efni og verkfæri til að byggja klósett í tjaldbúðunum,“ segir Hildur.

HIldur segir að fólk í bænum hafi misst allt og …
HIldur segir að fólk í bænum hafi misst allt og viti ekki hvort það hafi nægan mat og vatn fyrir morgundaginn. "Allir vona bara það besta." Ljósmynd/Hildur Valsdóttir

Stjórnvöld búin að gefast upp

Hún gagnrýnir viðbrögð stjórnvalda við náttúruhamförunum. Hafði hún í gær heyrt af því að stjórnvöld væru að mestu leyti búin að yfirgefa svæðin og hætt sé að grafa í rústunum.

„Það er ennþá enginn að fjarlægja allt rusl frá tjaldbúðunum. Þess vegna ennþá allt í rúst og enginn að gera neitt í því. Ég ætla að athuga hvort mér takist að finna vörubíl og mannskap til að hreinsa til í kringum tjaldbúðirnar. Og vonandi tekst okkur að búa til klósett sem fyrst, það er mikil hætta á að fólk veikist þegar allir fara á klósettið útum allt og rusl liggur hér og þar og rotnar,“ segir Hildur.

Þá hefur forseti landsins verið harðlega gagnrýndur sérstaklega eftir að það náðist af honum myndband þar sem hann hótar fólki refsingu gráti það yfir ástandinu. „Forsetinn segir fólki að enginn þurfi hjálp því allir séu dánir,“ segir Hildur.

„Við fengum enga hjálp í Canoa fyrr en 36 tímum eftir fyrsta skjálftann, forsetinn var í Vatíkaninu og tók enga ákvörðun um hvað gera skildi fyrr en um 24 tímum eftir að fyrsti skjálftinn reið yfir. Fullt af fólki dó vegna hans.“

Gífurlegur skortur á hreinlæti

Aðspurð um aðstæður fólksins í Canoa segir Hildur þær vægast sagt slæmar. „Fólkið býr í tjöldum ef það má kalla það tjöld. Við erum að tala um bambusspýtur með plastábreiðum yfir.“ Þar að auki er matar og vatnsskortur. „Yfirvöld senda ekkert og núna er ekki möguleiki fyrir fólk frá Ekvador að fara með birgðir inn á svæðin. Herinn stoppar fólkið og tekur birgðirnar af þeim, og það eru allskonar sögur í gangi um hvað verður um þetta. Vegna þess að ég er útlendingur þá má ég fara með birgðir inn á svæðið.“

Hún segir nú mikið áhyggjuefni að fólk byrji að veikjast í aðstæðunum í Canoa. Í bænum Pedernales sem er í 90 km norðan við Canoa, fór bærinn líka mjög illa en þar áttu skjálftarnir upptök. „Þar er fólk farið að veikjast vegna skorts á hreinlæti, og það er líka mikið af vatni í kyrrstöðu, rétt eins og í Canoa, sem býður uppá aukna hættu á Zika og Dengue vírusunum. Það síðasta sem við þurfum núna er að fólk byrji að veikjast, svo það þarf að gera eitthvað í stöðunni strax.“

Hægt er að styrkja hjálparstarf Hildar í Ekvador með því að leggja inn á reikningsnúmer 0111-26 13822 en kenntialan er 270486-4289

Hildur segir eyðilegginguna gríðarlega
Hildur segir eyðilegginguna gríðarlega
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert