Allir óttast Brexit nema Pútín

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, ávarpar stuðningsmenn á fundi, en Bretar …
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, ávarpar stuðningsmenn á fundi, en Bretar kjósa á morgun hvort þeir gangi í Evrópusambandinu. AFP

„Allt frá Peking, yfir til Berlínar, Brussel, Kaupmannahafnar og svo í Washington hafa menn miklar áhyggjur af því að Bretar kjósi á morgun að yfirgefa ESB og valdi þar með verstu krísu sem upp hefur komið í samstarfi Evrópuríkja,“ segir á vefsíðu Berlingske Tidende. Í Moskvu er Pútín þó sagður sjá ýmsa kosti við veikara Evrópusamband.

Bretar kjósa á morgun um það hvort þeir vilji vera áfram í Evrópusambandinu og skoðar Berlingske að því tilefni hvernig kosningarnar horfi við stjórnvöldum annarra ríkja.

Danir fái að kjósa líka

Dönsk stjórnvöld eru sögð halda niðri í sér andanum á meðan beðið er úrslitanna, enda óttist menn þar í landi að segi Bretar sig úr ESB geti það leyst úr læðingi tilvistarkreppu fyrir Evrópusambandið í heild. Kjósi Bretar að vera áfram í sambandinu telja Danir að í því felist ýmis tækifæri, m.a. um aukna fríverslun, en verði niðurstaðan úrsögn þá megi telja líklegt að Danski þjóðarflokkurinn þrýsti á um að Danir fái líka að kjósa um veru sína í ESB.

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur látið í ljós þá skoðun sína …
Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur látið í ljós þá skoðun sína að Bretum sé betur borgið í ESB. AFP

Bandaríkjaþing hefur gagnrýnt Barack Obama Bandaríkjaforseta fyrir að láta í ljós þá skoðun sína að Bretum væri betur borgið í ESB. Ekki er algengt að Bandaríkjaforseti taki þátt í kosningabaráttu erlends ríkis með þessum hætti, en Obama sagði að vandamál gætu fylgt því ef Bretar segðu skilið við ESB. Það muni taka allt að tíu ár að endurnýja viðskiptasamninga ríkjanna og áhrif Breta á alþjóðavettvangi muni minnka.

Krossa puttana í Brussel

Í Brussel segja menn hins vegar að burtséð frá því hvernig atkvæði falla á morgun, þá sé þörf á endurskoðun á Evrópusambandinu. Ráðherraráð Evrópusambandsins og yfirmenn í höfuðstöðvum NATO eru engu að síður sagðir krossa puttana um að Bretar kjósi að vera áfram í ESB.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, hefur varað við því að yfirgefi Bretar ESB valdi það ekki bara skjálfta í samstarfi ESB-ríkja, heldur kunni það einnig að vera upphafið á endilokum vestræns stjórnarsamstarfs. Tusk ítrekaði einnig að hvernig sem atkvæði falli, þá sé þörf á endurbótum og löngum umræðum um framtíðarhlutverk ESB.

Líst vel á veikara Evrópusamband

Opinberlega þá fara yfirvöld í Rússlandi varlega í að ræða brotthvarf Breta úr ESB og Pútin ítrekaði í síðustu viku að Rússar „vilji að sjálfsögðu frekar ræða við öfluga Evrópu“.

Vladimír Pútín forseti Rússlands, hefur sagt að Rússar vilji frekar …
Vladimír Pútín forseti Rússlands, hefur sagt að Rússar vilji frekar semja við sterkt Evrópusamband. Ýmsir kostir gætu þó falist í veikara ESB að mati ráðamanna í Moskvu. AFP

 Heimafyrir gætir ekki sömu varkárni hjá flokksfélögum Pútíns. Frá því að Úkraínudeilan hófst hefur rússneska ríkissjónvarpið dregið fram mynd af ESB að sambandið ógni stjórnmálaöryggi.

Veikara Evrópusamband hefði ýmsa kosti í augum ráðamanna í Moskvu, m.a. í orkumálum þar sem samevrópskar reglur hafa rofið einokun Rússa á gassölu til ríkja Austur-Evrópu. Brestir í samstarfi ESB ríkja kynnu einnig að rjúfa sameiginlegt viðskiptabann ríkjanna í garð Rússlands vegna Úkraínudeilunnar og svo kynni að fara að veikara Evrópusamband reyndist ekki jafnaðlaðandi kostur fyrir Úkraínu, Moldóvu og Georgíu. Rússum gæti þar með veist tækifæri til á að auka áhrif sín hjá þessum nágrannaríkjum.

Merkel ein eftir við stjórn skútunnar

Í Þýskalandi telja menn að yfirgefi Bretar sambandið þá verði Angela Merkel kanslari Þýskalands eini stjórnandi stefnulausrar skútu þar sem fjöldi sjóliða hugleiði uppreisn.

Þýskaland verð þar með áhrifamesta ríki ESB, ekki hvað síst þegar haft er í huga að þess vanda sem Frakkar glíma nú við vegna veiks efnahags og aukinnar samfélagsspennu. Innan ESB er hins vegar fjöldi ríkja sem tortryggir tilraunir stjórnvalda í Berlín til að finna samhæfðar lausnir á vanda álfunnar. Á Ítalíu og Spáni efast yfirvöld um þýsku sýnina á efnahag ESB og í Mið- og Austur-Evrópu sætir stefna Merkel í málefnum flóttamanna vanþóknun.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu. Þjóðverjar …
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu. Þjóðverjar óttast að Merkel verði eini stjóri stefnulausrar skútu gangi Bretar úr ESB. AFP

Flytji höfuðstöðvar sínar frá London

Í Kína er hins vegar talið að mörg kínversk fyrirtæki, sem nú eru með höfuðstöðvar Evrópuanga fyrirtækja sinna í London, muni flytja annað yfirgefi Bretar ESB. Sú var m.a. skoðun Wang Jianlin, eins ríkasta manns Kína fyrr á árinu, en í huga Wang og annarra kínverskra kaupsýslumanna hefur Bretland verið eins konar brú yfir til annarra ríkja ESB.

Stjórnvöld í Peking gera minna af því að tjá sig um málið, en Xi Jinping, forseti Kína, lýsti því þó yfir í heimsókn sinni til London sl. haust að Bretland væri mikilvægur hluti af ESB. Samskipti Kína og Bretlands hafa líka sjaldan verið betri og óttast stjórnvöld í Kína að þau missi mikilvægan tengilið við ESB, ákveði Bretar að yfirgefa sambandið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert