Mál litlu stúlkunnar ekki einsdæmi

Ellie var sex ára gömul þegar hún lést.
Ellie var sex ára gömul þegar hún lést. Skjáskot/Sky News

Mál Ellie, sex ára stúlku sem lést af völdum áverka sem faðir hennar veitti henni, er síður en svo einsdæmi í heimalandi hennar, Bretlandi. Stúlkan og systkini hennar dvöldu um tíma hjá ömmu sinni og afa eftir að hafa verið tekin frá foreldrum sínum.

Grunur lék á að faðirinn hefði beitt Ellie líkamlegu ofbeldi þegar hún var aðeins sjö vikna gömul. Ellefu mánuðum eftir að foreldrarnir fengu börnin aftur lést Ellie. Dómur úrskurðaði föðurinn í lífstíðarfangelsi í vikunni og móðurina í 42 mánaða langt fangelsi.

Í kjölfarið steig móðir tveggja drengja sem myrtir voru af föður sínum fram og sagði sögu þeirra. Hún segir í samtali við Guardian að enginn ætti að þurfa að þjást líkt og Ellie og synir hennar, Jack og Paul. Þeir voru tólf ára og níu ára þegar þeir voru myrtir en faðir þeirra hafði líkt og faðir Ellie beitt ofbeldi í gegnum tíðina.

„Pabbi minn gerði þetta og hann gerði það viljandi,“ sagði Jack skömmu áður en hann lést. „Þetta má aldrei gerast aftur,“ segir móðir hans.

Drengirnir létu lífið í október árið 2014. Faðir þeirra, Darren Sykes, fékk drengina til að koma upp á háaloft með því að lofa þeim sætindum og leikföngum en kveikti síðan í húsinu. Sykes fékk að hitta drengina fimm klukkustundir í hverri viku, jafnvel þó að móðir þeirra hafði lagt fram sönnunargögn þess efnis að hann hefði hótað að myrða þá og svipta sig lífi.

Frétt mbl.is: Gáfu trampólínið þegar stúlkan var myrt

Frétt mbl.is: Sviðsettu andlát sex ára dóttur sinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert