Varað við Brexit-blekkingum

AFP

Stuðningsmenn þess að Bretland yfirgefi Evrópusambandið hafa varað við skilaboðum sem dreift hefur verið á netinu þar sem fullyrt er að einnig verði boði að kjósa í þjóðaratkvæðinu á morgun vegna óvenjumikillar kosningaþátttöku. Hafa skilaboðin verið látin líta út eins og þau hafi komið frá breska ríkisútvarpinu BBC samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.

Fram kemur í fréttinni að einnig hafi verið dreift skilaboðum, ekki síst á samfélagsmiðlum, þess efnis að stuðningsmenn þess að vera áfram innan Evrópusambandsins eigi að kjósa í dag en andstæðingar þess á morgun. Samtök andstæðinga veru í sambandinu hafa fullyrt að skilaboðin séu runnin undan rifjum samtaka þeirra sem vilja vera áfram innan þess.

Kjörstöðum lokar í Bretlandi eftir um klukkustund en hugsanlegt er að fyrstu tölur fari að berast frá einstökum kjördæmum upp úr klukkan eitt í nótt. Endanleg niðurstaða mun hins vegar liggja fyrir í fyrramálið. Ekki er gert ráð fyrir útgönguspám eftir að kjörstöðum lokar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert