Þessi fimm vilja leiða Íhaldsflokkinn

Theresa May innanríkisráðherra.
Theresa May innanríkisráðherra. AFP

Fimm hafa lýst yfir áhuga á að leiða Íhaldsflokkinn og verða forsætisráðherra Bretlands þegar David Cameron stígur til hliðar í haust. Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri Lundúna, sagði óvænt frá því í dag að hann sæktist ekki eftir leiðtogahlutverkinu. Meðal þeirra sem hafa lýst yfir áhuga nú eru Michael Gove dómsmálaráðherra og Theresa May innanríkisráðherra. 

Yfirlýsing Gove er nokkuð óvænt því hann hafði áður sagt að hann ætlaði ekki að sækjast eftir formannsembættinu.

Hver hreppir stólinn mun skýrast þann 9. september. 

DavidCameron forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, tilkynnti fyrirhugaða afsögn sína um leið og úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðildina að ESB voru ljós. Niðurstaðan var sú að 52% Breta vildu yfirgefa sambandið en 48% vera áfram í því.

Michael Gove dómsmálaráðherra.
Michael Gove dómsmálaráðherra. AFP

En hverjir eru fimmmenningarnir sem vilja verða formaður og forsætisráðherra?

Theresa May innanríkisráðherra: May er 59 ára og samkvæmt veðbönkum í dag er hún nú talin líklegust til að fá embættið eftir að Johnson lýsti því yfir að hann myndi ekki sækjast eftir því. Hún hefur verið innanríkisráðherra frá því árið 2010 og sat áður í stjórn Íhaldsflokksins. Hún segist geta veitt flokknum sterka forystu og sameinað Bretland. Hún lofar „jákvæðri sýn“ á framtíð landsins. Hún var hlynnt áframhaldandi veru Breta í ESB en hafði sig ekki mikið í frammi í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar. 

 Michael Gove dómsmálaráðherra: 48 ára fyrrverandi dálkahöfundur. BBC segir að hann hafi verið lykilmaður í því að nútímavæða Íhaldsflokkinn er hann náði aftur völdum árið 2010. Á árunum 2010-2014 var hann menntamálaráðherra. Hann var einnig lykilmaður í aðdraganda Brexit og er náinn vinur Camerons. 

Stephen Crabb vinnumálaráðherra: 43 ára gamall og fékk stöðu innan ríkisstjórnarinnar árið 2014 er hann tók við sem ráðherra málefna Wales.  Í kjölfarið tók hann við sem ráðherra vinnu- og eftirlaunamála. Hann er sagður rísandi stjarna og hefur talað fyrir því að sameina verði þjóðina í kjölfar Brexit og koma á stöðugleika. Hann studdi veru Breta í ESB.

Andrea Leadsom aðstoðarorkumálaráðherra: 53 ára fyrrverandi bankastarfsmaður. Hún barðist fyrir því að Bretar segðu sig úr ESB. Hún var áður í sveitarstjórn en varð þingmaður Suður-Northamptonskíris árið 2010. Hún hefur átt sæti í fjárlaganefnd. Hún tók við sem aðstoðarorkumálaráðherra í maí á síðasta ári.

Liam Fox fyrrverandi varnarmálaráðherra: Þetta er í annað sinn sem hinn 54 ára Fox sækist eftir formannsstólnum. Hann studdi úrsögn úr ESB og er sagður til hægri í flokknum. Hann hefur sagt að sá sem verði forsætisráðherra megi ekki ganga gegn vilja bresku þjóðarinnar og reyna að halda henni áfram innan ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert