Þarf sitjandi formaður tilnefningar?

Angela Eagle hefur gefið það út að hún muni bjóða …
Angela Eagle hefur gefið það út að hún muni bjóða sig fram gegn sitjandi formanni, Jeremy Corbyn. AFP

Formannsslagurinn í Íhaldsflokknum varð mun styttri en búist var við eftir að annar af tveimur frambjóðendum sem eftir voru dró sig til hlés. Formannsslagurinn í Verkamannaflokknum er þó rétt að hefjast og því við hæfi að skoða reglurnar sem formannskosningarnar fara eftir.

Verkamannaflokkurinn mun kjósa sér formann áður en landsfundur flokksins hefst í september. Tveir frambjóðendur eru taldir líklegir til þess að berjast um formannsembættið gegn sitjandi formanni, Jeremy Corbyn. Það eru þau Angela Eagle sem þegar hefur tilkynnt um framboð sitt og Owen Smith, fyrrverandi skuggaráðherra atvinnu- og lífeyrismála. Eagle hefur þegar tryggt sér stuðning 51 þingmanns og er talið líklegt að Smith hafi nægilega mörg nöfn til þess að geta tryggt að nafnið hans verði á kjörseðlinum.

Sjá frétt mbl.is: Frambjóðandi fær óblíðar móttökur

Aðrir sem hafa verið orðaðir við framboð eru þau Yvette Cooper og Chuka Umunna sem bæði eru þingmenn flokksins. Cooper bauð sig fram árið 2015 og hið sama gerði Umunna en hinn síðarnefndi dró framboð sitt síðar tilbaka. 

Chuka Umunna hefur verið orðaður við framboð.
Chuka Umunna hefur verið orðaður við framboð. AFP

Verður nafn Corbyns á kjörseðlinum?

Frambjóðendur þurfa nefnilega tilnefningar frá þingmönnum flokksins til þess að nafn þeirra verði á kjörseðlinum. Í þeim tilvikum þegar formaður hefur sagt af sér þarf hver frambjóðandi stuðning 15% þingmanna flokksins, sem miðað við núverandi fjölda þingmanna er 38 þingmenn. Hins vegar hefur Corbyn ekki sagt af sér, og þá vandast málið. Það er nefnilega ágreiningur um það hvort sitjandi formaður þurfi tilnefningar til þess að komast á kjörseðilinn.

Sjá frétt mbl.is: Vilja nota Verkamannaflokksnafnið

Neil Kinnock, formaður Verkamannaflokksins frá 1983–1992, hefur tjáð sig um málið og segir ljóst að Corbyn þurfi tilnefningar þingmanna eins og hinir. Aðrir telja algjörlega ótækt að sitjandi formaður þurfi tilnefningar frá þingmönnum til þess að geta varist mótframboðum. Á meðal þeirra sem eru á þessari skoðun eru fulltrúar verkalýðshreyfinganna í Bretlandi en hreyfingarnar eru á meðal stærstu stuðningsmanna Corbyns.

Formaður framkvæmdastjórnar Verkamannaflokksins, Johanna Baxter, hefur samkvæmt heimildum The Guardian ekki óskað eftir lögfræðiáliti hvað þetta mál varðar en framkvæmdastjórnin hittist í dag á neyðarfundi þar sem málið verður rætt. 

Þegar búið er að ákveða hvaða nöfn verða á kjörseðlinum verður gengið til kosninga. Hafa þar allir félagar flokksins eitt atkvæði og sigurvegari kosninganna er sá sem fyrst nær yfir helmingi atkvæða. Nái enginn meirihluta í fyrstu umferð verður haldið áfram þar til sigurvegari liggur fyrir. 

Skráningargjaldið óákveðið

Framkvæmdastjórnin mun á næstunni ákveða dagsetningu þar sem lokað verður fyrir nýskráningar í flokkinn. Í fyrra var þessi dagsetning aðeins tveimur dögum fyrir atkvæðagreiðsluna sem leiddi til mikils álags á starfsmenn í höfuðstöðvum flokksins. Líklegt er að dagsetningin í þetta skiptið verði færð mun framar. Mikið var um nýskráningar í flokkinn í fyrra og þá sérstaklega á meðal stuðningsmanna Jeremys Corbyns. Til þess að skrá sig í flokkinn þarf að greiða þriggja punda félagsgjald. Þeir sem skráðu sig í fyrra til þess að kjósa í atkvæðagreiðslunni verða í ár aftur að skrá sig og borga félagsgjaldið til þess að geta tekið þátt í atkvæðagreiðslunni. Fjárhæð gjaldsins er hins vegar ákveðin af framkvæmdastjórninni og ekki liggur enn fyrir hversu hátt það verður.

Jeremy Corbyn sigraði í fyrstu formannskosningunum með nýja kosningaskipulaginu sem …
Jeremy Corbyn sigraði í fyrstu formannskosningunum með nýja kosningaskipulaginu sem innleitt var fyrir formannskosningarnar árið 2015 eftir að Ed Miliband sagði starfi sínu lausu eftir dræmt gengi í þingkosningunum. AFP

Reglur til trafala

Reglurnar í formannskjöri Verkamannaflokksins hafa í nokkur ár verið umtalsefni innan flokksins. Þegar Jeremy Corbyn var kjörinn formaður í fyrra var það gert samkvæmt nýjum reglum sem samþykktar voru í kjölfar skýrslu starfshóps flokksins frá árinu 2014. Fyrir þann tíma voru formannskosningarnar mun flóknari þar sem þingflokkurinn, almennir flokksmenn og verkalýðshreyfingin höfðu þriðjung atkvæðavægis hvert. Núgildandi reglur gera ráð fyrir að öll atkvæði gildi jafnmikið. Þetta þýðir að félagar í verkalýðsfélögum þurfa að skrá sig í flokkinn til að greiða atkvæði. 

Sjá frétt The Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert