Cameron verður ekki dómari í „Strictly Come Dancing“

David Cameron, fráfarandi formaður Íhaldsflokksins, og Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, …
David Cameron, fráfarandi formaður Íhaldsflokksins, og Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, áttust við í óundirbúna fyrirspurnatímanum á breska þinginu í dag í síðasta skiptið. AFP

Stemmningin í óundirbúna fyrirspurnatímanum á breska þinginu var betri í dag en oft áður þegar David Cameron sat fyrir svörum í síðasta skiptið sem forsætisráðherra. Síðar í dag tekur Theresa May við af honum sem forsætisráðherra. May sat við hlið Camerons í þingsalnum í dag á meðan hann og Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, áttust við.

Corbyn þakkaði Cameron fyrir störf hans og sagði að þrátt fyrir að þeir væru oft ósammála, væri við hæfi að hann benti á nokkur góð verk sem ríkisstjórnir Camerons hefðu unnið. Meðal annars var það að hafa unnið að því að Shaker Aamer hafi verið færður úr fangelsinu á Guantanamo Bay og Cameron fékk einnig hrós fyrir hjónabandslöggjöfina sem samþykkt var árið 2013. Með henni var samkynhneigðum veitt leyfi til að ganga í hjónaband.

Fyrsta spurning Corbyns sneri hins vegar að fjölda heimilislausra í Bretlandi og hvað Cameron vilji gera til að bæta úr fjölgun þeirra. Cameron sagði lykilinn vera að byggja fleiri íbúðir og fjölga úrræðum til að aðstoða fólk við að kaupa sér íbúð. Mikilvægast til að bæta úr stöðu heimilislausra sagði hann þó að væri áframhaldandi efnahagslegur vöxtur.

Kunningjaleg skot flugu á milli Corbyns og Camerons í dag og var léttari stemmning í salnum en oft áður. Corbyn vitnaði í nýleg orð Theresu May, verðandi forsætisráðherra, um að erfitt væri fyrir ungt fólk að kaupa sér íbúð í Bretlandi í dag, og spurði Cameron hvort það væri ekki áfellisdómur yfir ríkisstjórn hans. Cameron svaraði spurningunni, en ekki fyrr en hann var búinn að benda á þá staðreynd að innan fárra klukkustunda væri hægt að benda á þá staðreynd að tvær konur hefðu gegnt forsætisráðherraembættinu í Bretlandi og þær væru báðar frá Íhaldsflokknum. „Bráðum verður staðan 2-0,“ sagði Cameron og vakti það mikla kátínu á meðal þingmanna Íhaldsflokksins.

Theresa May verður í dag önnur konan til að gegna …
Theresa May verður í dag önnur konan til að gegna embætti forsætisráðherra Bretlands á eftir Margaret Thatcher. David Cameron nýtti fyrirspurnatímann á þinginu í dag til að benda á þá staðreynd að þær væru báðar úr Íhaldsflokknum. AFP

Grínið hélt áfram og varpaði Corbyn fram vafasamri samsæriskenningu um afsögn Camerons. „Þegar ég las í morgun að Len Goodman væri hættur sem dómari í Strictly Come Dancing, getur forsætisráðherrann afsannað þá samsæriskenningu að hann hafi sagt af sér til að taka við dómarastöðunni af Goodman?“ spurði Corbyn.

Cameron var ekki lengi að fullvissa þingsal um að hann hefði engar áætlanir um að verða dómari í danskeppninni vinsælu.

Annar langlífur orðrómur um David Cameron rataði í fyrirspurnatímann í dag. Fjölmiðlar í Bretlandi hafa birt fréttir af því að Cameron hafi í valdatíð sinni verið lítt hrifinn af húskettinum í forsætisráðherraíbúðinni að Downingstræti 10. Cameron sagði það af og frá og birti máli sínu til stuðnings mynd af sér haldandi á kettinum og virðast þeir hinir mestu mátar.

Larry, húskötturinn í forsætisráðherraíbúðinni að Downingstræti 10, var nefndur í …
Larry, húskötturinn í forsætisráðherraíbúðinni að Downingstræti 10, var nefndur í umræðum á þingi í dag. AFP

Forspár kjósandi hafði rétt fyrir sér

Cameron skaut á móti á Corbyn og vitnaði í bréf frá einum kjósanda Íhaldsflokksins sem barst honum þegar Corbyn tók við formannsembætti Verkamannaflokksins. Í bréfinu sagði kjósandinn Cameron að hafa ekki áhyggjur af Corbyn þar sem hann ætti eftir að sundra Verkamannaflokknum innan frá. Virðist sem þessi kjósandi hafi verið ansi forspár enda logar flokkurinn í innbyrðis deilum og hefur þingflokkurinn lýst yfir vantrausti á Corbyn og formannskosningar eru yfirvofandi.

„Ég held ég verði að hafa samband við þennan forspáa kjósanda sem fyrst og spyrja hana hvað gerist næst!“ sagði Cameron í léttum dúr.

Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins. AFP

Corbyn óskaði að lokum Cameron velfarnaðar og skilaði kveðju til fjölskyldu hans sem var viðstödd þennan síðasta fyrirspurnatíma hans á þinginu. Bestu kveðjurnar fékk þó móðir Camerons og er það ekki að ástæðulausu. Í fyrirspurnatíma fyrir nokkrum vikum sagði Cameron að móðir hans hefði skilað þeirri kveðju til Corbyns að hann yrði að eignast jakkaföt. Hún kunni ekki við að sjá hann illa til hafðan á þinginu.

Corbyn var í jakkafötum í dag og sagðist hann hafa tekið ráðleggingum móður Camerons. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert