Rannsaka meint heiðursmorð

Flest fórnarlömb heiðursmorða í Pakistan eru konur.
Flest fórnarlömb heiðursmorða í Pakistan eru konur. AFP

Lögregla í Pakistan rannsakar nú andlát konu eftir að breskur maður tilkynnti að kona sín hefði verið drepin í svokölluðu heiðursmorði þegar hún heimsótti fjölskyldu sína í landinu. Aðeins eru tíu dagar síðan þekkt samfélagsmiðlastjarna í landinu var drepin af bróður sínum í heiðursmorði. 

Mukhtar Kazam tilkynnti í gær að eiginkona sín, Samia Shahid, hefði verið drepin í þorpi fjölskyldu sinnar.

Hjónin eru bæði með tvöfaldan ríkisborgararétt, breskan og pakistanskan. Þau höfðu verið gift í tvö ár og bjuggu í Dubai. Þetta var annað hjónaband Shahid.

Lögreglustjórinn Aqeel Abbas sagði í samtali við fjölmiðla að foreldrarnir hefðu ekki verið ánægðir með að dóttir þeirra hefði gift sig aftur eftir skilnað. Sagði hann jafnframt að Shahid hefði verið að heimsækja fjölskyldu sína í þorpinu Pindori í Jehlum-héraði.

„Hún var drepin 20. júlí. Hún var drepin fyrir heiður fjölskyldunnar,“ sagði Abbas.

Lögreglumenn bíða nú niðurstöðu krufningarskýrslu en faðir konunnar segir hana hafa látið lífið af eðlilegum orsökum. Hann neitar því að um heiðursmorð hafi verið að ræða.

„Heiðursmorð“ er siður í Pakistan þar sem ættingi drepur annan ættingja fyrir það að eyðileggja heiður fjölskyldunnar. Eiga þau sér stað næstum því daglega og eru fórnarlömbin yfirleitt konur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert