Kennir Gove um forsíðuna frægu

Forsíða The Sun 9. mars á þessu ári.
Forsíða The Sun 9. mars á þessu ári. Skjáskot/The Sun

Það vakti mikla athygli fyrr á þessu ári þegar breska dagblaðið The Sun birti frétt á forsíðu sinni þar sem fullyrt var að drottningin styddi útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Í nýrri heimildarmynd um þjóðaratkvæðagreiðsluna og aðdraganda hennar fullyrðir Nick Clegg, fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra, að heimildarmaðurinn að baki fréttinni sé enginn annar en Michael Gove.

Gove var sjálfur menntamálaráðherra og einn þeirra sem börðust hvað harðast fyrir útgöngu Breta úr ESB. Í frétt The Sun var haft eftir heimildarmanni að drottningin hafi árið 2011 á fundi með Nick Clegg sagt að Evrópusambandið sé að þróast í ranga átt og að hún „skilji ekki Evrópu.“

Strax eftir að fréttin birtist á forsíðu The Sun sagði Clegg á Twitter að þetta hafi ekki verið rétt. Í heimildarmyndinni sem sýnd var á BBC í kvöld er Clegg harðorður.

„Sú hugmynd, að drottningin af öllum mönnum, skuli tjá sig um Evrópusambandið við aðstoðarforsætisráðherrann er ótrúleg og algjörlega ósönn. Mér finnst það sem Michael Gove gerði vera virðingarleysi,“ segir hann í samtali við BBC.

Nick Clegg, fyrrverandi leiðtogi Frjálslyndra demókrata og aðstoðarforsætisráðherra.
Nick Clegg, fyrrverandi leiðtogi Frjálslyndra demókrata og aðstoðarforsætisráðherra. AFP

Eftir að niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni lá fyrir vakti Gove mikla athygli þegar hann hætti við að styðja Boris Johnson sem nýjan formann Íhaldsflokksins, heldur bauð sig sjálfur fram. 

Frétt The Sun var kærð til fjölmiðlasiðanefndarinnar IPSO. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að dagblaðið hafi ekki haft grundvöll fyrir fréttinni sem birtist á forsíðunni. Aðstandendur The Sun stóðu hins vegar við fréttina og sögðust hafa trúverðugar heimildir fyrir atvikinu sem greint var frá.

Michael Gove, fyrrverandi menntamálaráðherra Bretlands.
Michael Gove, fyrrverandi menntamálaráðherra Bretlands. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert