Tyrkir herja á sýrlenska vígamenn

Tyrkir hófu árásir á vígasveitir Ríkis íslams í norðurhluta Sýrlands í gærkvöldi og hafa borist fregnir af því að sýrlenskir uppreisnarmenn ætli að ráðast til atlögu gegn vígasamtökunum frá Sýrlandi.

Árásir Tyrkja voru gerðar frá Tyrklandi og beindust bæði gegn Ríki íslams sem og vopnuðum hópi Kúrda í Sýrlandi, Varnarsveitum þjóðarinnar (YPG), í bæjunum Jarablus og Manbij.

BBC hefur heimildir fyrir því að um 1.500 sýrlenskir uppreisnarmenn, sem njóta stuðnings frá Tyrklandi, séu komnir til bæjarins Gaziantep, tilbúnir til þess að ráðast til atlögu. Á laugardag létust yfir 50 brúðkaupsgestir í Tyrklandi, skammt frá landamærum Sýrlands og saka tyrknesk yfirvöld Ríki íslams um að bera ábyrgð á tilræðinu. Tvennum sögum fer hins vegar af því hvort sjálfsvígsárásarmaðurinn þar hafi verið á barnsaldri eða fullorðinn og eins hvort Ríki íslams standi á bak við árásina eða aðrir vígahópar. 

Forsætisráðherra Tyrklands, Binali Yildirim, sagði í gær að stjórnvöld í Ankara gætu ekki staðfest hvaða vígasveit stæði á bak við árásina en daginn áður hafði forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, haldið því fram að Ríki íslams hafi verið þar að verki og árásarmaðurinn hafi verið 12 til 14 ára gamall. Yildrim sagði í gærkvöldi að þetta hafi ekki verið rétt og ekkert hægt að staðfesta þar um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert