Herða nauðgunarlög í Kaliforníu eftir Stanford-málið

Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníuríkis, skrifaði í gær undir lög sem …
Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníuríkis, skrifaði í gær undir lög sem herða á nauðgunarlögum í ríkinu. AFP

Ríkisstjóri Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum skrifaði undir lög í gær sem herða á nauðgunarlögum í ríkinu. Er þar kveðið á um að sé nauðgun framin þar sem fórnarlambið er undir áhrifum eða án meðvitundar þurfi gerandinn að sæta fangelsisvist.

Kemur þessi lagabreyting í kjölfar svokallaðs Stanford-máls, en þar var hinn 21 árs gamli Brock Turner sem var nemandi við skólann og liðsmaður í sundliði hans dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir að nauðga 22 ára gamalli ungri konu á bak við ruslatunnu, en konan var meðvitundarlaus.

Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, skrifaði undir lögin nokkrum vikum eftir að Turner losnaði úr fangelsi, en hann sat inni í 3 mánuði af þeim 6 sem hann var dæmdur í. Vakti málið upp mikla reiði á sínum tíma og var sagt að árásarmaðurinn hafi verið gerður að píslarvotti í málinu.

Brock Turner fékk vægari dóm en lög gerðu ráð fyrir …
Brock Turner fékk vægari dóm en lög gerðu ráð fyrir þar sem dómari taldi að fang­els­is­vist myndi hafa „veru­leg áhrif á hann“. AFP

Þá vakti vægur dómur upp mikil mótmæli og um milljón manns skrifuðu undir áskorun um að dómarinn í málinu yrði látinn fjúka. Aaron Per­sky, sem dæmdi málið, sagðist í dómnum hafa litið til þess að Turner hefði fengið góð meðmæli og væri ekki á saka­skrá. Sagði hann að fang­els­is­vist myndi hafa „veru­leg áhrif á hann“. Lágmarksrefsing fyrir glæp af þessu tagi í Kaliforníuríki er tvö ár.

Frétt mbl.is: Turner látin laus eftir þrjá mánuði

Frétt mbl.is: Brosti þegar að honum var komið

Frétt mbl.is: Vilja að dómari verði látinn fjúka

Frétt mbl.is: Blaut tuska í andlit þolenda

Frétt mbl.is: Árásarmaðurinn gerður að píslarvotti

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert