„Nýjar hugmyndir“ um frið ræddar

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Adel al-Jubeir, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, á …
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Adel al-Jubeir, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, á fundinum í Sviss í dag. AFP

Fulltrúar Bandaríkjanna, Rússlands og nágrannaríkja Sýrlands ræddu nýjar hugmyndir um hvernig koma megi vopnahléi á að nýju í Sýrlandi á fundi sem haldinn var í Sviss í dag.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að ákveðið hafi verið að embættismenn landanna myndu halda áfram að ræða saman strax á mánudag og gera drög að áætlun um hvernig koma megi á friðarsamkomulagi í Sýrlandi. Hann fór ekki út í nein smáatriði um hvað fælist í nýrri nálgun.

Kerry lýsti fundinum sem „þankaregni“ og þó að spenna sé á milli þeirra sem sátu fundinn hafi hann ekki verið gagnslaus. Hann segir að allir sem hann sátu séu sammála um neyðina sem við blasi. Hann segir að fundurinn hafi verið nákvæmlega eins og hann hafi viljað hafa hann.

Fulltrúar frá Bandaríkjunum, Rússlandi, Íran, Sádi-Arabíu, Tyrklandi, Egyptalandi, Jórdaníu, Írak og Katar voru á fundinum í Lausanne í Sviss í dag. 

Hann segir að nokkur „erfið augnablik“  hafi komið upp og að það hafi verið augljós spenna en hins vegar hafi fundurinn í heild verið uppbyggilegur.

Kerry flýgur nú til London til fundar við fulltrúa Evrópuríkja. Á honum mun hann gefa þeim upplýsingar um hvaða leiðir voru ræddar og hver næstu skref verði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert