Mikilvægur áfangi í átt að Mosúl

Fjölskylda frá Hamam al-Alil sem flúði heimili sitt meðan barist …
Fjölskylda frá Hamam al-Alil sem flúði heimili sitt meðan barist var um yfirráð í bænum. AFP

Íraksher hefur náð yfirráðum í bænum Hamam al-Alil á leið sinni til Mosúl en bærinn var undir yfirráðum Ríkis íslams. Yfirtakan er mikilvægur áfangi í leið hersins í átt að borginni Mosúl, helsta vígi Ríkis íslams í Írak.

Hamam al-Alil er á vesturbakka Tigris-fljóts, í um 15 km suðaustur af Mosúl. Hermenn hafa þegar komið inn í Mosúl úr austri og nálgast borgina úr norðri en enn er töluvert í land í suðri. 

Tökumaður AFP-fréttastofunnar segir að lífið í bænum Hamam al-Alil sé strax að færast í eðlilegt horf, verið sé að opna verslanir á nýjan leik og aðrir baða sig í heitum lindum bæjarins.

Þetta þýðir að auðveldara er fyrir herinn að halda áfram norður og nálgast suðurhluta Mosúl.

Í suðurhluta Mosúl er meðal annars alþjóðaflugvöllurinn og stór herstöð sem íraski herinn varð að flýja í júní 2014 þegar Ríki íslams náði völdum í Mosúl.

AFP

Samkvæmt frétt BBC berjast liðsmenn sveitir Kúrda, sem nefnast peshmerga við vígasveitir Ríkis íslams í bænum Bashiqa. Hundruð liðsmanna peshmerga taka þátt í aðgerðum íraskra stjórnvalda um að endurheimta Mosúl úr höndum vígasamtakanna. Kúrdar hafa náð yfirráðum yfir helming bæjarins en tvær vikur eru síðan hersveitir umkringdu bæinn. Illa hefur gengið að flæma vígasveitir á brott enda hefur sprengjum verið komið fyrir víða og bílsprengjuárásir tíðar.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert