Bardaginn um Mosúl nálgast Nimrud

Írösk hersveit í þorpinu Arbid suður af Mosúl.
Írösk hersveit í þorpinu Arbid suður af Mosúl. AFP

Bardaginn um næststærstu borg Íraks, Mosúl, færist sífellt nær sögufræga staðnum Nimrud. Óttast er að staðurinn verði fyrir enn frekari skemmdum en liðsmenn Ríkis íslams hafa þegar unnið skemmdarverk á honum með sprengjum og sleggjum.

Hersveitir nálgast tvö þorp sem eru undir stjórn Ríkis íslams skammt frá Nimrud, eða um 30 kílómetrum suður af Mosúl.

Þorpin nefnast Abbas Rajab og Al-Nomaniyah.

Gömul konungshöll í fornu borginni Hatra í norðvesturhluta Íraks, sem …
Gömul konungshöll í fornu borginni Hatra í norðvesturhluta Íraks, sem er staðsett á milli Mosúl og Samarra. Hersveitir nálgast Nimrud sem hefur að geyma margar fornminjar. AFP

Nimrud var ein merkasta miðstöð Mið-Austurlanda til forna. Staðurinn byggðist upp á þrettándu öld fyrir krist. Þar risu upp stórar hallir og minnisvarðar sem hafa laðað til sín fornleifafræðinga víðs vegar að úr heiminum í rúm 150 ár.

Margar höggmyndir og rismyndir voru fluttar á söfn úti um allan heim en sumir enn stærri minnisvarðar voru enn á staðnum þegar Ríki íslams lagði hann undir sig fyrir rúmum tveimur árum.

Í apríl í fyrra sendi Ríki íslams frá sér myndband þar sem fornminjar voru brotnar með sleggjum í Nimrud, auk þess sem sprengjuefni var dreift um svæðið og það sprengt upp.

Ekki er vitað hvað er enn eftir hinum fornum minjum í Nimrud.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert