Segja lítið vit í Johnson

Boris Johnson er ekki alltaf orðheppnasti maðurinn í herberginu.
Boris Johnson er ekki alltaf orðheppnasti maðurinn í herberginu. AFP

Nálgun Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, á Brexit hefur verið höfð að háði eftir að hann tjáði ítölskum ráðamönnum að þeir þyrftu að greiða fyrir tollfrjálsri verslun til að geta selt prosecco í Bretlandi.

Carlo Calenda, ráðherra efnahagsþróunar, sagði móðgandi að Johnson hefði sagt við sig á fundi nýlega að Ítalir myndu veita Bretum aðgang að sameiginlegum markaði Evrópusambandsins af því að þeir vildu ekki missa niður prosecco-útflutning sinn.

Prosecco er ítalskt freyðivín.

„Hann sagði: „Ég vil ekki frjálsa för fólks en ég vil sameiginlega markaðinn,““ sagði Calenda um Johnson við Bloomberg. „Ég sagði: „Alls ekki.“ Hann sagði: „Þú munt selja minna af prosecco.“ Ég sagði: „Ok, þú selur minna af fisk og frönskum, en ég mun selja minna prosecco til eins ríkis og þú munt selja minna til 27 ríkja.“ Að setja hlutina upp með þessum hætti er örlítið móðgandi.“

Calenda gagnrýndi einnig stefnu breskra stjórnvalda og sagði kröfu þeirra um aðgang að hinum frjálsa markaði ekki samrýmast takmörkunum á frjálsri för fólks.

„Einhver þarf að segja okkur eitthvað, og það þarf að vera eitthvað sem vit er í,“ sagði hann. „Þú getur ekki sagt að það sé skynsamlegt að segjast vilja aðgang að sameiginlega markaðnum en enga frjálsa hreyfingu fólks. Það er augljóst að það er ekkert vit í því.“

Ráðherrann ítalski, sem var eitt sinn sendifulltrúi í Brussel, sagði menn ekki skilja afstöðu Breta. Eina umræðan sem ætti sér stað færi fram innan breska stjórnkerfisins. Stjórnvöld í Bretlandi þyrftu að setjast að samningaborðinu og sýna spilin.

Jeroen Dijsselbloem, forseti Evrópuráðsins, gagnrýndi Johnson einnig á BBC og sagði allt tal utanríkisráðherrans „vitsmunalega ómögulegt“ og „stjórnmálalega ófáanlegt.“ Hann sagði Johnson ekki gefa bresku þjóðinni rétta mynd af því sem hægt væri að ná fram í viðræðum um úrsögn Breta úr Evrópusambandinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert