Geta borið kennsl á „dýrustu“ einstaklingana á barnsaldri

Börn að leik.
Börn að leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lítill þjóðfélagshópur er líklegur til að reynast samfélaginu dýrastur, ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar þar sem skoðuð voru áhrif reynslu í barnæsku á afdrif fólks á fullorðinsárum.

Rannsakendurnir fylgdust með um 1.000 einstaklingum frá fæðingu og fram að 38 ára aldri. Þeir komust m.a. að þeirri niðurstöðu að 81% sakadóma þátttakenda mátti rekja til 22% hópsins, svo og 78% allra lyfjaávísana og 66% allra bótagreiðslna.

Um 20% íbúa er að nota bróðurpart margs konar samfélagsþjónustu, að sögn Terrie Moffitt, eins höfunda rannsóknarinnar. Hún segir sama fólk stærstu notendur opinbera heilbrigðiskerfisins og dómstólanna, þeir eigi flestar tryggingakröfur vegna örorkuvaldandi slysa, flestar lyfjaávísanir og þiggi mestar félagslegar bætur.

Moffitt ítrekar að niðurstöðurnar eigi fremur að vekja meðaumkun en hvetja til fordóma. Umræddir einstaklingar hafi ekki notið þess að vera vel undirbúnir fyrir nútímasamfélag og vinnumarkað sem byggi á tækni og menntun.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Nature Human Behaviour en samkvæmt þeim hefði verið hægt að sjá fyrir hvaða þátttakendur myndu lenda í fyrrnefndum hópi út frá mælingum sem gerðar voru þegar einstaklingarnir voru 3-11 ára.

Þeir þættir sem voru mældir voru efnahagslegur bakgrunnur, reynsla af vanrækslu, greindarvísitala og sjálfsstjórn. Þá hefði einnig verið hægt að spá fyrir um útkomu barnanna með því að horfa til mælinga á heilastarfsemi við þriggja ára aldur, þar sem m.a. var horft til hreyfigetu, tungumálaskilnings, félagslegrar hegðunar og greindarvísitölu.

Sérfræðingar segja rannsóknina benda til þess að frekari rannsókna sé þörf á nauðsyn inngripa á unga aldri. Bæði einstaklingar og samfélagið myndu sjá ávinning af því að fjárfesta í auknum úrræðum fyrir börn í áhættuhóp.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert