Dönsk stjórnvöld sökuð um hræsni

Joanna Palani er 23 ára Dani.
Joanna Palani er 23 ára Dani. Ljósmynd/Facebook

Dönsk kona, sem barðist fyrir kúrdíska herinn í Írak og Sýrlandi gegn Ríki íslams, hefur verið handtekin í Kaupmannahöfn. Hafa dönsk yfirvöld verið sökuð um hræsni vegna meðferðar þeirra á henni, í samanburði við þá liðsmenn hryðjuverkasamtakanna sem einnig hafa snúið aftur heim til Danmerkur.

Konan, sem heitir Joanna Palani og er 23 ára, barðist með kúrdíska Peshmerga-hernum í Írak og YPG-herliðinu í Sýrlandi. Nú gæti hún hlotið fangelsisdóm.

Þannig eru málavextir að Palani var úrskurðuð í 12 mánaða ferðabann í september á síðasta ári, til að koma í veg fyrir að hún færi aftur á átakasvæðið. Við yfirheyrslu í síðustu viku viðurkenndi hún hins vegar að hafa ferðast að minnsta kosti alla leið til Doha í Katar í júní á þessu ári. Var hún þá hneppt í varðhald og bíður annarrar yfirheyrslu á morgun.

Barist gegn Ríki íslams í Írak.
Barist gegn Ríki íslams í Írak. AFP

„Það er skömm að þessu“

Lögmaður hennar, Erbil Kaya, bendir á kaldhæðnina í því að saksækja einhvern sem barist hafi í sömu fylkingu og danskir hermenn, og hermenn annarra Vesturlanda, á sama tíma og ríkisstjórnin leitist við að koma fyrrverandi stríðsmönnum Ríkis íslams í endurhæfingu.

„Það er skömm að þessu,“ segir Kaya. „Við erum fyrsta ríkið í heiminum til að refsa manneskju sem hefur barist við hlið alþjóðlega bandalagsins. Það er hræsni að refsa henni. Af hverju refsum við ekki þeim sem berjast fyrir ISIS, í stað fólks sem er að berjast í liði með Danmörku?Ég held að þetta gangi ekki upp.“

Palani er sú fyrsta til að sæta varðhaldi samkvæmt nýjum lögum um málefni erlendra vígamanna. Er henni haldið í stærsta fangelsi Danmerkur, Vestur-fangelsinu í Kaupmannahöfn.

Ítarleg umfjöllun The Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert