Dómur fellur um Brexit

AFP

Hæstiréttur Bretlands mun kveða upp úrskurð sinn, um það hvort bresku ríkisstjórninni sé heimilt að hefja úrsagnarferlið úr Evrópusambandinu án þess að leita samþykkis þingsins, klukkan 9:30. Fimmtán mínútum áður verður niðurstaðan kynnt fyrir Theresu May, forsætisráðherra Bretlands. Samkvæmt breskum fjölmiðlum býst ríkisstjórnin við að tapa málinu.

Málið snýst um það hvort Hæstiréttur Bretlands staðfestir niðurstöðu Hæstaréttar Englands og Wales síðasta haust þess efnis að bresku ríkisstjórninni beri að leita samþykkis þingsins áður en grein 50 í Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins verður virkjuð en þar er kveðið á um það ferli sem fer í gang ef ríki ákveður að yfirgefa sambandið. Ríkisstjórnin áfrýjaði málinu til Hæstaréttar Bretlands en hún stefnir að því að hefja úrsagnarferlið í lok mars.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að ríkisstjórn May hafi látið semja fjögur mismunandi lagafrumvörp til þess að bregðast við úrskurði dómstólsins eftir því með hvaða hætti hún verður. Stjórnvöld leggi á það mikla áherslu að bregðast hratt við niðurstöðunni hver sem hún kunni að verða. Samþykkt var í þjóðaratkvæði í Bretlandi síðasta sumar að landið myndi segja skilið við Evrópusambandið.

Talið er þó ólíklegt að þingið muni koma í veg fyrir grein 50 verði virkjuð. Sérstaklega í ljósi þess að May hefur heitið því að bera endanlegan samning við Evrópusambandið um fyrirkomulag úrsagnarinnar undir þingið. Þingið hefur þegar samþykkt þingsályktun þar sem lögð var blessun yfir áætlun May um að hefja úrsagnarferlið. Þeir sem stóðu að dómsmálinu telja hins vegar að lagasetningu þurfi í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert