„Saydnaya eru endalok lífsins“

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Saydnaya fangelsið er staðurinn þar sem sýrlensk stjórnvöld slátra eigin þjóð hljóðlega. Flest fórnarlambanna eru venjulegt fólk sem talið er að tilheyri stjórnarandstöðunni. Fangelsi þar sem föngum er synjað um lyf, mat og drykk. Þar sem fólk er pyntað og tekið af lífi að næturlagi. 

„Saydnaya eru endalok lífsins - endalok manngæskunnar,“ segir Abu Muhammed, fyrrverandi fangavörður í Saydnaya, í nýrri skýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International. Skýrslan nefnist: Human Slaughterhouse: Mass hanging and extermination at Saydnaya prison.

Þarna hafa 13 þúsund fangar verið teknir af lífi udanfarin …
Þarna hafa 13 þúsund fangar verið teknir af lífi udanfarin ár. AFP

Skýrslan, sem var birt í nótt, byggir á viðtölum við 84 vitni, þar á meðal fangaverði, fanga og dómara. Þar sem sýrlensk stjórnvöld heimila ekki félögum í Amnesty International að koma til landsins voru viðtölin tekin í suðurhluta Tyrklands. Margir þeirra hættu lífi sínu við að ræða við mannréttindasamtökin en samtökin hafa ekki fengið að koma á þau svæði sem ríkisstjórn Sýrlands  ræður yfir frá árinu 2011 þegar uppreisnin braust út. 

Áratuga hefð fyrir pyntingum sýrlenskra stjórnvalda

Pyntingar og mannshvörf eru ekki ný af nálinni í Sýrlandi því stjórnvöld þar í landi hafa beitt þessum aðferðum áratugum saman. Árið 1987 gaf Amnesty International út skýrslu þar sem lýst er 35 pyntingaraðferðum sem beitt var í fangelsum í Sýrlandi. Frá árinu 2011 hefur hins vegar ofbeldið gagnvart föngum stigmagnast auk þess sem föngum hefur fjölgað verulega. Fagnarnir í Saydnaya koma úr öllum lögum þjóðfélagsins. Mótmælendur, stjórnarandstæðingar, fólk sem berst fyrir mannréttindum, blaðamenn, læknar, fólk sem vinnur með mannúðarsamtökum og námsmenn. 

Þegar Hafez  al-Assad var forseti Sýrlands, en hann er faðir núverandi forseta, Bashar Hafez al-Assad, var við völd hurfu þúsundir Sýrlendinga af yfirborði jarðar. Talið er að á 20 ára tímabili, frá 1980 til 2000, er talið að ríkisstjórn hans beri ábyrgð á hvarfi 17 þúsund Sýrlendinga. Jafnframt á hvarfi fjölmargra Palestínumanna, Líbana og annarra araba í landinu.

Að minnsta kosti einu sinni í viku á tímabilinu 2011-2015 voru allt að 50 manns teknir úr klefum sínum í Saydnaya fangelsinu. Þeir voru dregnir fyrir herrétt, barðir og síðan hengdir með leynd. Allan tímann var bundið fyrir augu fanganna. Þeir vissu ekki hvenær eða hvernig þeir myndu deyja fyrr en snaran var sett um háls þeirra. „Þeir létu þá hanga í 10-15 mínútur,“ segir fyrrverandi dómari í skýrslunni sem var vitni að slíkum aftökum.

Hann segir að ungu mennirnir hafi verið svo léttir að þeirra eigin þyngd nægði ekki til þess að drepa þá. Því þurftu fangaverðirnir að draga þá niður og hálsbrjóta þá. 

Eftir tvær vikur hefjast í Sviss viðræður um möguleg stríðslok. Tæp sex ár eru síðan stríðið braust út í Sýrlandi, stríð sem vart er hægt að kalla borgarastyrjöld vegna þess hversu mörg erlend ríki hafa dregist inn í átökin. Stríði sem hefur kostað hátt í hálfa milljón Sýrlendinga lífið og sent helming þjóðarinnar á vergang. 

Loka þarf mannlegum sláturhúsum landsins

Um 80% sýrlensku þjóðarinnar býr undir fátækramörkum og þar af búa 70% við sára neyð. Atvinnuleysi er 60% og helmingur barna er ekki í skóla. Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í samtímasögu, benti nýverið á það í fyrirlestri á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands að lífslíkur Sýrlendinga eru  20% styttri í dag en árið 2011. Talið er að stríðið hafi nú þegar kostað  275.000.000.000 Bandaríkjadali og áætlað að kostnaður við uppbyggingu verði svipaður. Uppbyggingu sem enginn veit hverjir eiga að standa að og hvað þá fjármagna. 

Fjöldagrafir í boði sýrlenskra stjórnvalda.
Fjöldagrafir í boði sýrlenskra stjórnvalda. AFP

Lynn Maalouf, sem vinnur við rannsóknir á vegum Amnesty International í Beirút, segir að ekki sé hægt að horfa fram hjá skýrslunni við friðarviðræðurnar í Genf. Það verði að tryggja það að þessum leynifangelsum, mannlegu sláturhúsum, verði lokað.

Saydnaya fangelsið skiptist í tvennt en alls eru fangarnir á milli 10 og 20 þúsund talsins. Í rauðu byggingunni eru flestir fanganna almennir borgarar sem hafa verið handteknir frá því uppreisnin braust út árið 2011. Í hvítu byggingunni eru flestir fangarnir fyrrverandi embættismenn og hermenn sýrlenska hersins sem einnig hafa verið handteknir frá árinu 2011. 

Eina sem þú hugsar um er að lifa af

Þúsundir fanga í rauðu byggingunni hafa verið teknir af lífi með aftökum sem fara fram með leynd. Ekki er talað um aftökur heldur partý þegar fangaverðir safna föngunum saman síðdegis sem taka á af lífi. En í stað þess að vera fluttir í almenn fangelsi, líkt og föngunum er tjáð þegar þeir eru sóttir. Ferlið hefst um miðjan dag en lýkur um miðja nótt með dauða. 

Wael, sem var fangi í Saydnaya frá 2012 til 2014 segir að heilastarfsemin sé mjög óeðlileg hjá þér í Saydnaya. Þeir hafi ekki hugsað út í þá villimennsku sem þar var við lýði. Það eina sem komst að var að lifa af. „Þetta er raunverulegt stríð og að lokum, ef þú neitar að taka þátt, þá deyrðu.“

Það eina sem þú sást var blóð - þitt eigið blóð - blóð annarra

Barsmíðar eru algengasta pyntingaraðferðin í Saydnaya. Salam, lögfræðingur frá Aleppo, var í haldi í fangelsinu 2012 til 2015. Hann segir að fangaverðirnir hafi notað alls konar aðferðir við pyntingarnar. Til að mynda rafmagnskapla sem festir voru við húð þeirra, vatnsrör af ýmsum stærðum og gerðum og járnstangir. Mjög vinsælt var að nota dekkjagúmmí sem var skorið í ræmur og fest við tréprik. „Þau gáfu frá sér sérstakt hljóð; sem hljómaði ekki ósvipað litlum sprengingum. Það var bundið fyrir augun á mér allan tímann en ég reyndi að sjá eitthvað. Það eina sem þú sást var blóð, þitt eigið blóð, blóð annarra. Eftir eitt högg þá missir þú allt tímaskyn og hvað sé að gerast. Þú ert í áfalli en síðan kemur sársaukinn.“

Sameer, sem var handtekinn þegar hann var í námi í Homs, lýsir barsmíðunum á eftirfarandi hátt: Þetta var eins og þú værir með nagla sem þú reyndir og reyndir að berja í stein. Eitthvað sem er ómögulegt en hélt bara áfram. Ég óskaði þess að þeir myndu bara höggva af mér fæturna í stað þess að berja þá stöðugt.“

Hljóð frá föngum sem voru að kafna

Í skýrslu Amnesty er sýrlenska stjórnin sökuð um pyntingar á föngum og að hafa svelt fanga. Föngum sé nauðað eða þeir neyddir til að nauðga hver öðrum. Fangaverðirnir gáfu þeim að borða með því að henda mat á gólf fangaklefanna - gólf sem oft voru þakin drullu og blóði. Fangarnir mega ekki tjá sig og eru neyddir til þess að taka sér ákveðna stöðu á meðan fangaverðirnir komu inn í klefann. 

„Á hverjum degi voru tveir eða þrír látnir í okkar álmu [...] Ég man þegar fangaverðirnir spurðu hversu marga við værum með. Hann sagði: Herbergi númer eitt - hversu margir? Herbergi númer 2 - hversu margir? og svona hélt þetta áfram,“ segir Nader sem var fangi í Saydnaya.

Einn daginn þegar barsmíðarnar voru mjög harkalegar létust 13 fangar í einni álmu, segir Nader. Annar lýsir sérkennilegu hljóði sem barst frá aftökuherbergjunum í kjallaranum. Eins konar gjálfur. En í ljós kom að það voru hljóð frá fólki sem var að kafna. „En á þessum tíma var þetta daglegt brauð fyrir mig,“ segir Hamid í skýrslunni.

Einn fangavarðanna sem tók þátt í því að safna saman þeim föngum sem átti að taka af lífi viðkomandi dag segir að föngunum hafi fyrst verið safnað saman í eitt herbergi þar sem þeir máttu ekki setjast niður. Þar hafi hver sem vildi getað gengið í skrokk á föngunum. 

„Við vissum að þeir myndu hvort sem er deyja svo við gerðum það sem okkur datt í hug við þá. Þeir höfðu ekki hugmynd um hvert þeir voru að fara. Ég man eftir manni sem var glaður því hann hélt að það ætti að láta hann lausan. Við héldum þeim þarna þangað til snemma morguns. Ég vissi ekki nákvæmlega hvert var farið með þá. Okkar verkefni var lokið þegar við afhentum á fyrir framan rauðu bygginguna.“

Aftökuherbergin stækkuð

Fangar sem sluppu lífs af úr fangelsinu lýsa því í skýrslunni hvernig hljóðin frá pyntingunum bárust inn í klefa þeirra. Hljóð frá svipum sem var svarað með neyðarópum frá þeim sem var verið að pynta, klukkustundum saman.

Aftökuherbergið í Saydnaya fangelsinu var stækkað árið 2012 svo hægt væri að taka fleiri af lífi á sama tíma. Um tvö herbergi er að ræða, annað með 10 snörum en hitt með 20. Pallarnir sem fórnarlömbin standa á er einn metri á hæð og er steyptur. Þegar fyrirmæli eru gefin um aftöku er föngunum, sem standa á pöllunum, hrint fram af og látnir hanga.

Aðrir lifðu dvölina af en fæstir sluppu við pyntingar og barsmíðar. Nauðganir voru liður í ofbeldinu og oft á þann hátt að fangarnir voru látnir nauðga hver öðrum. Einn þeirra, Omar, segir í skýrslunni að hann viti ekki einu sinni hvernig hann geti lýst þessu og nauðganirnar séu eitthvað sem enginn fangi vilji tala um en þær áttu sér stöðugt stað. Hann viti það af eigin raun. Oft sé andlegi sársaukinn verri en sá líkamlegi.

Verðirnir hafi látið alla afklæðast og fara inn í baðherbergið einn af öðrum. Þegar þeir hafi farið inn í herbergið hafi fangaverðirnir valið einn úr hópi drengjanna, einhvern lítinn eða ungan. Síðan átti hann að standa með andlitið að dyrunum og loka augunum. Síðan fyrirskipuðu þeir stærri fanga að nauðga honum. 

Þrír menn sem eru meðal fjölmargra fanga í Saydnaya.
Þrír menn sem eru meðal fjölmargra fanga í Saydnaya. Amnesty International

Omar segir að í einhverjum tilvikum hafi þeir fangar sem voru neyddir í þetta látist í kjölfarið. Þeir hafi einfaldlega gefist upp á lífinu og hætt að borða þann litla mat sem var í boði. Ef fangi neitaði að nauðga öðrum var viðkomandi barinn til óbóta og jafnframt einhverjum hlut troðið inn í endaþarm hans í refsingarskyni. 

Amnesty International telur að ofbeldið sem beitt er í Saydnaya falli undir glæpi gegn mannkyninu og hvetur til þess að alþjóðasamfélagið láti fara fram sjálfstæða rannsókn á þeim glæpum sem framdir eru í fangelsinu sem og víðar í fangelsum sýrlenskra stjórnvalda.

Umfjöllun mbl.is um Sýrland og málefni flóttafólks

Gervihnattamynd af Saydnaya.
Gervihnattamynd af Saydnaya. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert