Slúðrað um ástarlíf forsetaframbjóðanda

Emmanuel Macron.
Emmanuel Macron. AFP

Franski forsetaframbjóðandinn, Emmanuel Macron, kom ýmsum á óvart í gærkvöldi þegar hann tjáði sig opinberlega um orðróm sem lengi hefur verið í gangi um hann og ástarlíf hans.

Mjög hefur verið slúðrað um að Macron ætti í ástarsambandi við útvarpsstjóra ríkisútvarpsins (France Radio), Mathieu Gallet.

Mathieu Gallet.
Mathieu Gallet. Twitter

Á fundi með stuðningsmönnum sínum í París flutti hann klukkutíma langa ræðu og kom meðal annars inn á orðróminn sem hefur flogið fjöllum hærra á samfélagsmiðlum og milli blaðamanna um að hann og Gallet ættu í ástarsambandi.

„Ég er sá sem ég er og hef aldrei haft neitt að fela,“ sagði Macron. Hann sagðist heyra orðróm að hann ætti sér annað líf og það sé allt annað en skemmtilegt fyrir eiginkonu hans, Brigitte, að þurfa að heyra slíkt. Því hann sé með henni alla daga og allar nætur þá hafi hún einnig velt því fyrir sér hvenær í ósköpunum hann hafi tíma fyrir slíkt leyndarlíf.

Marcron bætti hlægjandi við að hann hafi jafnvel aldrei fengið greitt fyrir leynilegt líferni og vísaði þar til þess sem andstæðingur hans, François Fillon, og eiginkona standa frammi fyrir. Ákvörðun Macron að taka á orðróminum þykir snjöll enda nánast öruggt að sagan hefði fengið byr undir báða vængi þegar liði á kosningabaráttuna. Ekki síst þar sem honum er spáð ágætu fylgi í fyrri umferð forsetakosninganna í apríl.

Rússneska ríkisfréttastofan Sputnik birti í gær ásakanir um að hreyfingar samkynhneigðra styddu á bak við kosningabaráttu hans og vísaði þar í viðtal við franska þingmanninn Nicolas Dhuicq, sem er flokksbróðir François Fillon.

Á þingmaðurinn sagt að það væri á allra vörum að ríkir samkynhneigðir menn stæðu á bak við framboð hans sem kæmi kannski ekki á óvart miðað við einkalíf hans. Viðtalið þykir benda til þess að Rússar muni reyna að hafa áhrif á niðurstöður frönsku forsetakosningarnar til þess að tryggja að annað hvort Fillon eða Marine Le Pen fái framgang en þau eru þeir forsetaframbjóðendur sem Vladimír Pútín Rússlandsforseta hugnast best. Ólíkt þeim þá styður Macron Evrópusambandið.

The Local

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert