Mega skaffa eitrið fyrir eigin aftöku

119 fangar eru á dauðadeildinni í Arizona og var fangi …
119 fangar eru á dauðadeildinni í Arizona og var fangi síðast tekinn af lífi í ríkinu 2014. Nýjar siðareglur varðandi aftökur heimila föngum og lögfræðingum þeirra nú að skaffa eitrið sjálfir. AFP

Þau ríki Bandaríkjanna sem heimila dauðarefsinguna mæta nú ýmsum hindrunum varðandi framkvæmdahliðina á aftöku með banvænni sprautu. Hafa sum ríkjanna velt fyrir sér öðrum möguleikum, m.a. því hvort taka eigi rafmagnsstólinn eða aftökusveitir í notkun á nýjan leik.

Fréttavefur Guardian segir yfirvöld í Arizona þó væntanlega eiga frumlegustu hugmyndina til þessa, en í nýjustu siðareglum fangelsismálayfirvalda fyrir aftökur í ríkinu segir að lögfræðingum sé heimilt að koma sjálfum með lyfin til að bana skjólstæðingum sínum.

Mikill skortur er sagður vera á þeim lyfjum sem notuð eru við aftökur, auk þess sem virkni þeirra er dregin í efa.

Samkvæmt siðareglunum er „lögmanni fanga eða þriðja aðila sem starfar fyrir fangann“ hins vegar heimilt að láta dauðadeildinni í té róandi lyf, svefnlyf eða lyf á borð við pentobarbital sem notað er við aftökur, ef þeir geti fengið það afhent frá „vottuðum apótekara með starfsleyfi, apóteki, framleiðanda eða dreifiaðila.“

Fáránleg og án fordæmis

Þeir lögfræðingar sem Guardian ræddi við segja hugmyndina fáránlega. Megan McCracken, sem er sérfræðingur í aftökum með banvænni sprautu, við lagadeild Berkeley-háskóla, segir greinina vera „án fordæmis, algjöra nýjung og satt best að segja fáránlega“. „Fangi eða lögfræðingur fanga getur einfaldlega ekki fengið þessi lyf með löglegum hætti, eða flutt þau með löglegum hætti til fangelsismálastofnunar, þannig að það er erfitt að ímynda sér hvað Arizona-stofnunin var að hugsa með því að bæta þessari heimskulegu grein við aftökusiðareglur sínar,“ sagði McCracken.

Lögfræðingurinn Dale Baich, sem tekur að sér vörn í málum sem varða dauðarefsingu í Arizona, sagðist vera orðlaus og ófær um að útskýra greinina, sem veki upp siðferðilegar spurningar ekki síður en lagalegar.

„Það er ekki löglegt fyrir mig sem lögfræðing að fara og skaffa skjólstæðingi mínum lyf. Þannig að lagalega er þetta ómögulegt, sem og siðferðislega þar sem mitt starf felst í því að tryggja réttindi skjólstæðings míns, en ekki að vinna fyrir ríkið í að sjá til þess að það framkvæmi aftökuna,“ sagði Baich. „Ef ríkið vill vera með dauðarefsingu er það skylda þess að komast að því hvernig það geti framkvæmt hana án þess að brjóta stjórnarskrána og það getur ekki sett þá kvöð á fangann sjálfan eða nokkurn annan.“

Fangelsismálayfirvöld í ríkinu svöruðu ekki fyrirspurnum Guardian um það hvaða hugmyndir lægju á bak við greinina.

Heimila gasklefa, aftökusveit eða rafmagnsstólinn

Danska lyfjafyrirtækið Lundbeck, sem hefur séð Bandaríkjamarkaði fyrir lyfinu pentobarbital sem notað hefur verið við aftökur fanga, bannaði árið 2011 að lyfið yrði notað við aftökur. Yfirvöld í Arizona reyndu 2015 að flytja lyfið sodium thiopental með ólöglegum hætti frá Indlandi, en sendingin var stöðvuð af alríkisyfirvöldum í höfninni í Phoenix.

119 fangar eru á dauðadeildinni í Arizona og var fangi síðast tekinn af lífi í ríkinu 2014, þegar það tók Joseph Wood tæpa tvo tíma að deyja þar sem hann var reyrður niður á börurnar á meðan hann var sprautaður með 15 lyfjaskömmtum.

Fjórir fangar hafa verið teknir af lífi í Bandaríkjunum með banvænni sprautu það sem af er þessu ári.

Fulltrúadeildin í Mississippi samþykkti fyrr í þessum mánuði frumvarp sem kveður á um að ef banvænar sprautur eru ófáanlegar, eða ef úrskurðað verði að þær brjóti í bága við stjórnarskrána sé heimilt að nota gasklefa, aftökusveit eða rafmagnsstól til verksins.

Aftökur fyrir tilstilli aftökusveitar hafa verið heimilaðar í Utah frá því 2015, í þeim tilfellum þar sem lyf eru ófáanleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert