Nornaveiðar segir Trump

Leiðtogi demókrata á Bandaríkjaþingi,Nancy Pelosi, segir að dómsmálaráðherra landsins, Jeff Sessions, eigi að segja af sér vegna samskipta hans og sendiherra Rússlands á síðasta ári. Bandaríkjaforseti segir að um nornaveiðar sé að ræða af hálfu demókrata og að Sessions sé heiðarlegur maður.

Sessions sagði í gær að hann myndi víkja sæti „þegar það væri viðeigandi“ frá mögulegri rannsókn dómsmálaráðuneytisins á meintum tengslum forsetaframboðs Donalds Trump Bandaríkjaforseta við yfirvöld í Rússlandi. Ákvörðunin kom í kjölfar þess að fjölmiðlar vestanhafs greindu frá því að Sessions, sem þá var öldungadeildarþingmaður, hefði sjálfur fundað tvisvar með sendiherra Rússlands í Washington á síðasta ári.

 Greint var frá því í gær að heimildir innan úr Hvíta húsinu herma að tengdasonur Donalds Trump forseta, Jared Kushner, og fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi forsetans, Michael Flynn, hafi átt fund með sendiherra Rússa í desember. Flynn þurfti að láta af embætti í síðasta mánuði þar sem hann sagði ekki satt og rétt frá samskiptum sínum við sendiherrann. 

Í grein Stefáns Gunnars Sveinssonar í Morgunblaðinu í dag kemur fram að talsmenn Hvíta hússins höfnuðu því að Sessions hefði gert nokkuð af sér, og sögðu fréttaflutninginn runninn undan rifjum demókrata. Þeir hafa kallað eftir því að Sessions segi af sér vegna málsins og að þingið skipi sérstakan saksóknara til þess að rannsaka tengslin á milli Trump-framboðsins og Rússlands.

Leyniþjónustustofnanir Bandaríkjanna hafa áður sagt að Rússar hafi skipt sér af kosningabaráttunni um Hvíta húsið á síðasta ári og barist þar gegn framboði Hillary Clinton, sem lengi vel var talin sigurstranglegri frambjóðandinn.

Sessions tjáði sig við NBC-sjónvarpsstöðina og hafnaði því að fundir sínir með sendiherranum hefðu snúið að kosningabaráttu Trumps. „Mér finnst þessi ummæli ótrúleg og þau eru röng. Ég hef ekkert frekar að segja um málið,“ sagði Sessions.

Bandaríska dagblaðið Washington Post greindi frá því í fyrrinótt að Sessions hefði hitt Sergei Kislyak, sendiherra Rússa, í júlí og í september, en á þeim tíma voru ásakanir uppi um að Rússar hefðu brotist inn í tölvupóstþjón Demókrataflokksins.

Það sem flækir málin fyrir Sessions er að hann þvertók fyrir það 10. janúar síðastliðinn í yfirheyrslum hjá öldungadeild Bandaríkjaþings að hann hefði haft nokkur samskipti við Rússa. Sessions var þá eiðsvarinn til þess að segja sannleikann.

Chuck Schumer, forystumaður demókrata í öldungadeildinni, segir að Sessions ætti að segja af sér fyrir að hafa farið með rangt mál í yfirheyrslum deildarinnar. „Dómsmálaráðuneytið verður að vera hafið yfir allan vafa,“ sagði Schumer. „Sessions ætti að víkja vegna þjóðarheill.“

Talsmaður Sessions sagði hins vegar að fundir hans með Kislyak hefðu verið eðlilegur þáttur af starfi hans sem öldungadeildarþingmanns, en Sessions var meðal annars formaður hermálanefndar deildarinnar. Hann hefði samtals hitt um 25 erlenda sendiherra vegna þeirra starfa. Aðrir í nefndinni könnuðust hins vegar ekki við að þeir hefðu þurft að hitta sendiherra annarra ríkja vegna nefndarstarfa sinna. Þá hefði Sessions ekki greint öldungadeildinni frá fundunum, þar sem hann hefði verið spurður um það hvaða vitneskju hann hefði um meint tengsl Rússlands við forsetaframboð Trumps, en ekki um það hvaða tengsl hann sjálfur hefði haft við Rússa í þingmannsstörfum sínum.

 Rússar kannast ekki við málið

Yfirvöld í Moskvu sögðu að þau könnuðust ekki við það aðSessions hefði fundað meðKislyak á síðasta ári. SagðiDimitriPeskov, talsmaður Rússlandsforseta, að hefðu slíkir fundir farið fram væru þeir eðlilegir hluti af starfi sendiherrans. „Ég veit ekki neitt um það, því að starf hans felur í sér að hann fundi með eins mörgum og hann getur, þar á meðal fulltrúum bæði framkvæmdavalds og löggjafarvalds í þeim ríkjum þar sem hann þjónar,“ sagðiPeskov. Málið væri alfarið vandamál Bandaríkjamanna. „Þetta er ekki minn höfuðverkur,“ sagðiPeskov.

Sendiráð Rússa í Washington sendi einnig frá sér tilkynningu þar sem það sagðist ekki myndu tjá sig um fundi sendiherrans að öðru leyti en að þeir væru margir og færu að öllu leyti fram í samræmi við hefðir og venjur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert