„Allt var lögum samkvæmt“

Penelope Fillon, ásamt eiginmanni sínum Francois Fillon, forsetaframbjóðanda franska Repbúblikanaflokksins.
Penelope Fillon, ásamt eiginmanni sínum Francois Fillon, forsetaframbjóðanda franska Repbúblikanaflokksins. /AFP

Penelope Fillon, eiginkona franska forsetaframbjóðandans Francois Fillon, segist víst hafa sinnt störfum fyrir eiginmann sinn þegar hann starfaði sem þingmaður. Forsetaframboð Fillon hefur átt á brattann að sækja eftir að í ljós kom að eiginkona hans og börn höfðu fengið greidd laun frá ríkinu fyrir störf sem erfitt hefur reynst að sanna að þau hafi raunverulega sinnt.

„Hann þurfti einhvern til að sinna verkefnum sínum,“ sagði Penelope í samtali við franska sunnudagsblaðið Journal du Dimanche, en hún fékk í nokkur ár greidd laun fyrir að sinna ýmsum störfum sem aðstoðarmaður eiginmannsins á meðan hann gegndi þingmennsku.

„Reyna að drepa löngunina í breytingar“

Þess hefur verið krafist að Fillon dragi framboð sitt til baka en til stendur að hann komi fram á fjöldafundi nærri Eiffel-turninum í dag. Fillon býður sig fram fyrir franska Repúblikanaflokkinn og hefur flokkurinn haldið krísufundi vegna málsins.

„Ef það hefði ekki verið ég hefði hann greitt einhverjum öðrum til að sinna þessu, svo við ákváðum að það yrði ég,“ sagði Penelope Fillon jafnframt.  „Allt var lögum samkvæmt.“

Hún segist hvetja eiginmann sinn til að halda framboðinu til streitu og fara alla leið, en ákvörðunin verði á endanum að vera hans eigin. Þá hefur hún hvatt stuðningsmenn eiginmannsins til að fylkjast á bak við hann í kosningabaráttunni og ekki gefast upp.

Í ræðu sem Fillon hélt fyrir stuðningsmenn sína í gær, þegar hann fagnaði 63 ára afmæli sínu, sagði hann að þeir sem berjist gegn framboði hans væru að „reyna að drepa löngunina í breytingar.“.

Stuðningur við Fillon fer ört dvínandi

Nýjustu skoðanakannanir gefa til kynna að hann muni tapa í fyrstu umferð kosninganna sem fara fram 23. apríl. Þar etur hann meðal annars kappi við Marine Le Pen, formann frönsku Þjóðfylkingarinnar, og forsetaframbjóðandann Emmanuel Macron, en er talið líklegt að þau hafi betur en Fillon og kosið verði milli þeirra tveggja í annarri umferð forsetakosninganna 7. maí.

Samkvæmt skoðanakönnun Journal de Dimanche vilja 71% þeirra sem tóku þátt í könnuninni að Fillon hætti við framboðið. Þá tilkynnti Thierry Solere, talsmaður Fillon, á föstudag að hann sé hættur störfum fyrir Fillon og þykir sú ákvörðun Solere ekki heldur vera framboðinu til uppdráttar.

Stígur Juppe aftur inn í baráttuna?

Eftir að málið kom upp hefur orðrómur verið á lofti þess efnis að Alain Juppe, sem tapaði fyrir Fillon í forkosningum Repúblikanaflokksins, myndi aftur koma til greina sem frambjóðandi flokksins en hann tapaði fyrir Fillon með 33% greiddra atkvæða gegn 66% Fillon sem vann öruggan sigur í forkosningunum.

Heimildarmenn sem nánir eru Juppe segja hann vera reiðubúinn að stíga aftur inn í baráttuna, en aðeins þegar og ef einhuga stuðningur verði við það innan flokksins og aðeins ef Fillon myndi sjálfviljugur hætta við framboðið.

Hingað til hefur Fillon ekki sagst hafa það í hyggju að hætta við framboðið þrátt fyrir að dregið hafi verulega úr stuðningi við hann innan flokksins. Þá hafa yfir 60 franskir stjórnmálamenn sagst ekki geta stutt hann lengur.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert