Upplýsti ekki um lán

François Fillon, forsetaframbjóðandi Les Republicains.
François Fillon, forsetaframbjóðandi Les Republicains. AFP

François Fillon, forsetaframbjóðandi repúblikana í Frakklandi, varð fyrir enn einu áfallinu í gær þegar vikuritið Le Canard enchaîné  birti frétt um að hann hafi fengið 50 þúsund evrur, sem jafngildir 5,7 milljónum króna, að láni hjá kaupsýslumanni. 

Lánið var veitt vaxtalaust árið 2013 og taldi Fillon ekki nauðsynlegt að gefa það upp til eftirlitsstofnunar á vegum ríkisins. Fillon fékk lánið hjá vini sínum, milljarðamæringnum Marc Ladreit de Lacharriere.

Blaðið kemur út í dag en samkvæmt því geta þessi mistök Fillon kostað hann möguleika á að verða næsti forseti Frakklands. Le Canard enchaîné  birti einnig fyrst fjölmiðla fréttir af launagreiðslum til eiginkonu Fillons og barna þeirra hjá franska þinginu. 

Lögmaður Fillon, Antonin Levy, staðfestir að lánið hafi verið að fullu greitt en ekki hvenær. 

Ladreit de Lacharriere er forstjóri Fimalac, fjármálafyrirtækis sem á meðal annars bókmenntaritið La Revue des Deux Mondes. Útgáfan greiddi eiginkonu Fillon, Penelope, 100 þúsund evrur á árunum 2012 og 2013 en litlar heimildir eru um störf hennar hjá útgáfunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert