Skotland standi fyrir utan ESB

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands.
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands. AFP

Fyrsti ráðherra Skotlands, Nicola Sturgeon, hefur lagt á hilluna þá stefnu flokks síns, Skoska þjóðarflokksins, að landið sæki um inngöngu í Evrópusambandið öðlist það sjálfstæði frá breska konungdæminu. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph í dag.

Fram kemur í fréttinni að þess í stað vilji Sturgeon að Skotland sækist eftir aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) verði landið sjálfstætt. Þar eru fyrir Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein. Sturgeon hefur boðað þjóðaratkvæði um hvort Skotland skuli lýsa yfir sjálfstæði en slíkt kosning fór síðast fram 2014 þar sem sjálfstæði var hafnað.

Samþykki breska þingsins þarf til þess að slíkt þjóðaratkvæði fari fram en Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að ekki komi til greina að af slíkri kosningu verði fyrr en viðræðum breskra stjórnvalda við Evrópusambandið um útgöngu Breta úr sambandinu verði lokið. Fyrr viti skoskir kjósendur ekki hvaða valkostum þeir standi frammi fyrir.

Vaxandi efasemdir um ESB á meðal Skota

Búist er við að viðræðurnar um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu standi fram á árið 2019. Meirihluti breskra kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2016 að segja skilið við sambandið en meirihluti kjósenda í Skotlandi vildi hins vegar vera áfram í sambandinu. Hins vegar hafa efasemdir um Evrópusmabandið farið vaxandi í landinu.

Samkvæmt frétt Daily Telegraph er það meðal annars ástæðan fyrir sinnaskiptum Sturgeons og einnig sú staðreynd að hún telji sig þurfa á stuðningi um hálfrar milljónar skoskra kjósenda að halda, sem studdu sjálfstæði 2014 en greiddu hins vegar atkvæði með því síðasta sumar að yfirgefa Evrópusambandið, komi til þjóðaratkvæðis um sjálfstæði Skotlands.

Þessi hálf milljón kjósenda er um helmingur þeirra sem kusu með sjálfstæði 2014. Á sama tíma sýnir ný skoðanakönnun að meirihluti skoskra kjósenda styður ekki sjálfstæði frá breska konungdæminu. Þannig eru 57% nú andvíg sjálfstæði samkvæmt könnuninni sem fyrirtækið Yougov gerði fyrir breska dagblaðið Times. 43% styðja hins vegar sjálfstæði.

Getur ekki vænst mikils stuðnings frá ESB

Fram kemur í fréttinni að munurinn á milli andstæðra fylkinga hafi ekki verið meiri í tvö og hálft ár en 55% skoskra kjósenda studdu áframhaldandi veru í breska konungdæminu 2014 á meðan 45% vildu að Skotland lýsti yfir sjálfstæði. Þá hefur stuðningur á meðal Skota við að standa utan Evrópusambandsins farið vaxandi samkvæmt könnunum.

Frá því var ennfremur greint á fréttavef Daily Telegraph í gær að Sturgeon hafi fengið þau skilaboð frá ráðamönnum innan Evrópusambandsins að hún gæti ekki vænst mikil stuðnings úr þeirri áttinni í aðdraganda þjóðaratkvæðis um sjálfstæði Skotlands. Skotland fengi ennfremur enga sérmeðferð ef landið sækti um inngöngu í sambandið.

Þannig sagði utanríkisráðherra Spánar, Alfonso Dastis, á sunnudaginn að ef Skotar segðu skilið við breska konungdæmið og sæktu í kjölfarið um inngöngu í Evrópusambandið færu þeir aftast í röðina. Ráðamenn á Spáni og víðar innan Evrópusambandsins vilja enda ógjarnan að sjálfstætt Skotland verði hvatning fyrir aðskilnaðarhreyfingar í ríkjum innan sambandsins.

Skoski og breski fáninn.
Skoski og breski fáninn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert