Þau þekkja vel ópin í særðu fólki

Austurhluti Aleppo er í rúst. Þar býr þó enn fólk. …
Austurhluti Aleppo er í rúst. Þar býr þó enn fólk. Hér eru börn að leik í Karm al-Jabal-hverfinu fyrr í vikunni. AFP

„Áður en orrustuþoturnar komu var Sýrland fallegur staður. En um leið og þær komu þá eyðilögðu þær Sýrland og breyttu því í rústir.“ - Sýrlensk stúlka.

„Árásarmenn umkringdu heimilið okkar og skutu pabba minn. Þegar ég verð hræddur þá byrjar líkami minn að skjálfa. Hjarta mitt fer að hamast.“ - Sýrlenskur táningur.

„Hann stamar stanslaust. Hann sefur ekki á nóttinni. Hann er alltaf hræddur.“ - Móðir sýrlensks tánings.

„Hún er í stöðugu áfalli. Hún verður aldrei söm við sig.“ - Móðir sýrlenskrar stúlku.

Þetta eru dæmi um sannar sögur fórnarlamba stríðsins í Sýrlandi. Stríðið hefur nú staðið í sex ár, lengur en heimsstyrjöldin síðari. Að minnsta kosti 320 þúsund hafa fallið, þar af mörg þúsund börn. 

Unglingar að leik á götu í Aleppo. Þessir drengir hafa …
Unglingar að leik á götu í Aleppo. Þessir drengir hafa verið nokkurra ára er stríðið braust út. Þeir muna því mögulega eftir því hvernig Sýrland var fyrir stríð. AFP

Sex ár. 

Á þeim tíma hefur heil kynslóð vaxið úr grasi sem þekkir ekkert annað en stríð. Hefur ekki gengið í skóla eða notið góðrar heilsugæslu. 

Börnin þekkja vel hljóðið í orrustuþotunum. Þau þekkja vel hljóðið þegar sprengjurnar falla, hús hrynja. Þau þekkja líka vel ópin í særðu fólki, jafnvel ættingjum sínum. Þau þekkja líka hungur.

Ekkert þeirra barna sem alist hefur upp í Sýrlandi hefur komist hjá því að kynnast afleiðingum stríðsins. 

Manstu eftir bræðrunum þremur sem voru úti að leika sér þegar sprengjan sprakk? Og einn þeirra dó?

Manstu eftir litlu stjörfu stúlkunni sem kom með móður sinni á sjúkrahús eftir árás í Aleppo? Eða litla drengnum sem sat með skeifu og brostin augu á sjúkrabekknum meðan blóðið var þurrkað framan úr honum? Eða stúlkunni sem varð fyrir efnavopnaárás og skalf nakin með súrefnisgrímu fyrir vitunum?

BBC hefur tekið saman stutt myndskeið með öllum þessum börnum. Það er hins vegar ekki vitað hver örlög þeirra allra urðu.

Loftárásir halda áfram í Sýrlandi. Síðast í gær bárust fréttir af því þegar fjórtán börn létust í slíkri árás í Idlib í norðvesturhluta landsins. Talið er að sprengjunni hafi verið varpað úr rússneskri orrustuþotu. Rússar hófu afskipti af stríðinu í Sýrlandi í september árið 2015. Þeir bera ábyrgð á hundruðum árása síðan þá.

Áhrif stríðsins eru fjölmörg. Í Sýrlandi verður nú æ erfiðara fyrir fólk að komast af. Barnaþrælkun hefur aukist gríðarlega, enda hafa börn neyðst til að sleppa skóla og fara þess í stað að vinna. Í 75% fjölskyldna í Sýrlandi neyðast börn til að vinna til að hjálpa fjölskyldum sínum. Mörg barnanna vinna við afar erfiðar aðstæður, sem eru jafnvel ekki á færi fullorðinna að starfa við. Þetta kom fram í skýrslu sem Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna gaf út á mánudag.

Niðurstaða skýrslunnar er sú að staða barna í Sýrlandi hafi aldrei verið jafnslæm og nú, sex árum eftir að stríðið hófst. 

Börn í þorpinu Raqa í Sýrlandi.
Börn í þorpinu Raqa í Sýrlandi. AFP

Eftir sex ár af stríðsátökum þurfa nærri sex milljónir barna á mannúðaraðstoð að halda. Það er tólfföldun frá árinu 2012. Milljónir barna hafa þurft að flýja að heiman og dæmi eru um börn sem hrakist hafa allt að sjö sinnum á milli staða. UNICEF var í Sýrlandi fyrir stríðið og er þar nú. Neyðaraðgerðirnar í Sýrlandi og nágrannaríkjunum eru þær umfangsmestu frá stofnun UNICEF fyrir sjötíu árum.

Alls búa 280.000 börn á 13 svæðum í Sýrlandi sem enn er haldið í herkví. Eina leið hjálparsamtaka til að ná til þeirra er með bílalestum með hjálpargögn. Dæmi eru um að þær hafi verið stöðvaðar og samtökum þannig meinað að veita særðum og sjúkum hjálp. Þrátt fyrir þetta náði UNICEF í fyrra að koma hjálpargögnum til 820.000 manna sem haldið er í herkví, í alls 86 aðgerðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert