„Vonandi ekki systir mín“

Í hvert skipti sem sem sjúklingur er borinn inn á Athbah sjúkrahúsið, suður af Mósúl í Írak biður Sultan læknir þess að þetta sé ekki systir hans eða bróðir. Flestir þeirra sem starfa á sjúkrahúsinu eru frá borginni stríðshrjáðu og hver sjúklingur getur verið ættingi eða nágranni.

„Þetta er mjög sársaukafullt fyrir okkur [...] Margir, mörg börn þurfa á aflimun að halda eða verða lömuð áfram,“ segir Sultan í samtali við AFP fréttastofuna. Athabah er ekki sjúkrahús eins og Íslendingar þekkja heldur lítið færanlegt sjúkrahús sem sett var upp rétt sunnan við borgina. 

Börn að safna skothylkjum í Mósúl. Í tæplega hálft ár …
Börn að safna skothylkjum í Mósúl. Í tæplega hálft ár hefur sprengjum rignt yfir borgina en stjórnarherinn er að reyna að endurheimta hana úr höndum vígasamtakanna Ríki íslams. AFP

Sultan, sem vill ekki koma fram undir fullu nafni, flúði Mósúl þegar Ríki íslams náði borginni á sitt vald. Vígasamtökin segja Mósúl vera höfuðborg kalífadæmis þeirra í Írak. En þrátt fyrir að hann hafi náð að flýja þá eru systkini hans innikróuð í vesturhluta Mósúl en Ríki íslams er þar enn við völd. Í tæpt hálft ár hafa geisað bardagar um borgina þar sem stjórnarherinn, með stuðningi hersveita Kúrda, reynir að ná henni á sitt vald að nýju.

„Ég hef engar fréttir af þeim,“ segir hann. „Ríki íslams beitir almennum borgurum sem mannlegum skjöldum og margar byggingar eru í rúst eftir loftárásir. Þau liggja kannski í húsarústum og ég hef ekki hugmynd um það.“

AFP

Þegar fréttamaður AFP ræðir við Sultan er hann að sinna manni á fertugsaldri sem er í lífhættu. Ástand hans er stöðugt segir Sultan eftir að hafa kannað púls mannsins. Í sama herbergi er Faruq Abdulkader að sinna unglingi sem er sárkvalinn en um leið afar heppinn því byssukúla fór í gegnum handlegg hans án þess að snerta beinin.

Þeir voru áður starfandi læknar í Mósúl en flúðu harðstjórn Ríkis íslams. En nú þegar stjórnarherinn er að berjast við vígamenn á götum úti þá sneru þeir aftur til þess að veita aðstoð.

Athabh sjúkrahúsið hóf starfsemi 24. mars með stuðningi frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) og heilbrigðisyfirvöldum í Írak.

AFP

Abdulkader segir að flestir sjúklingarnir hafi særst í sprengjuárásum en það væri sennilega erfiðast að horfa á nágranna og vini þjást. „Sumir þeirra eru nágrannar okkar, koma frá sama svæði og ég bjó á í Mósúl og ég finn svo til með þeim,“ segir hann.

Því baráttan um borgina tekur sinn toll á íbúum Mósúl. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum voru að minnsta kosti 307 almennir borgarar drepnir á tímabilinu 17. febrúar til 22. mars. Tímabili sem nær aðeins yfir fyrstu vikurnar sem barist var um vesturhluta Mósúl. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu margir hafa verið drepnir frá því átökin um Mósúl hófust um miðjan október. 

AFP

Abdulkader, sem er 29 ára gamall, segist vera þakklátur fyrir að vera í þeirri stöðu að geta veitt mannúðaraðstoð því ekki væru allir vinir hans svo gæfusamir. Til að mynda hefðu tveir starfsbræður hans og vinir verið drepnir í borginni. Annar af vígamönnum og hinn í loftárás stjórnarhersins.

Þeir Sultan og Abdulkader geta ekki rætt lengur við fréttamanninn því sjúkraliðar koma hlaupandi inn á gjörgæsludeildina með sjúkling, þann þriðja á hálftíma. Búið er að binda um andlit hans og bein standa alls staðar út úr líkamanum. 

Bardaginn um Mósúl hefur staðið í tæpt hálft ár og birgðir sjúkrahúsa að tæmast. Ekki hefur verið hægt að kaupa helstu nauðsynjar mánuðum saman og sá litli matur sem er í boði er of dýr til þess að almenningur hafi ráð á honum. 

AFP

„Nánast allir okkar sjúklingar þjást af vannæringu,“ segir Taryn Anderson, yfirhjúkrunarfræðingur á Athbah. „Við getum ekki talað um hungursneyð en þetta vekur ótta, einkum vegna barnanna.“

Ali Saad Abdulkhaled, 26 ára gamall hjúkrunarfræðingur sem áður starfaði í austurhluta Mósúl, segir særðum fjölga skelfilega hratt. Hann starfaði áður í austurhluta borgarinnar en staðan sé mun verri í vesturhlutanum sem er þéttbýlli, einkum í gamla hluta borgarinnar. „Fjöldi fórnarlambanna er hrikalegur. Þetta eru nágrannar okkar og ættingjar,“segir hann. 

Mósúl.
Mósúl. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert