Dauðarefsingar í Kína áfram ríkisleyndarmál

Mynd af aftökuaðstöðu í Amman, höfuðborg Jórdaníu. Þar voru 15 …
Mynd af aftökuaðstöðu í Amman, höfuðborg Jórdaníu. Þar voru 15 fangar teknir af lífi með hengingu nú síðasta mánuði. AFP

Íran, Sádí-Arabía, Írak, Pakistan og Kína eru þau ríki sem sem flestir eru teknir af lífi. Bandaríkin tróna í fyrsta sinn frá árinu 2006 ekki í einu fimm efsta sætanna yfir þau ríki sem taka flesta af lífi og í fyrra höfðu ekki verið framkvæmdar færri aftökur þar í landi frá árinu 1991.

Árið 2016 voru 1032 manns hið minnsta teknir af lífi í þeim 23 ríkjum sem Amnesty International hélt skrá yfir og eru það 37% færri en árið á undan, þegar 1634 aftökur voru skráðar í 25 ríkjum. Þetta kemur fram í ársskýrslu samtakanna, sem segir rannsókn sína leiða í ljós að yfirlýsingar kínverskra stjórnvalda um opið og gagnsætt réttarfar séu byggðar á sandi.

Nota leynilegt kerfi til að fela fjöldann

„Skelfileg beiting dauðarefsingarinnar í Kína heldur áfram að vera ríkisleyndarmál og stjórnvöld halda uppteknum hætti og taka þúsundir einstaklinga af lífi á ári hverju,“ segir í fréttatilkynningu Amnesty.  Ný ítarleg rannsókn sýni að kínversk stjórnvöld noti flókið og leynilegt kerfi til að fela raunverulegan fjölda aftaka í landinu.

Að Kína undanskildu hafi hins vegar 1.032 aftökur verið skráðar á árinu 2016, en Kína beitti fleiri aftökum en öll önnur ríki samanlagt. Í  Bandaríkjunum náði beiting dauðarefsingar hins vegar sögulegu lágmarki á síðasta ári.

Dauðaklefinn í Huntsville fangelsinu í Texas.
Dauðaklefinn í Huntsville fangelsinu í Texas. PAUL BUCK

„Kínversk stjórnvöld hafa viðurkennt að hægt gangi að ná fram opnu og gagnsæu réttarfarskerfi en halda fast við sinn keip að leyna raunverulegum fjölda aftaka í landinu. Það er löngu tímabært fyrir Kína að svipta hulunni af þessu banvæna leyndarmáli og gera loks hreint fyrir sínum dyrum um dauðarefsingar í landinu,“ er haft eftir SalilShetty fram­kvæmda­stjóra Am­nesty In­ternati­onal í tilkynningunni.

„Aðeins örfá ríki taka fólk enn af lífi í auknum mæli. Meirihluti ríkja lætur ekki viðgangast að ríkið taki mannslíf. Einungis fjögur ríki bera ábyrgð á 87% allra skráðra aftaka í heiminum sem vitnar til um að dauðarefsingin sem slík sé í dauðateygjunum.“

Rannsókn Amnesty sýni fram á að hundruð skráðra dauðarefsingarmála finnist ekki í gagnasafni dómstóla á netinu. Gagnasafnið geymir aðeins brot af þeim þúsundum dauðadóma sem Amnesty áætlar að kínversk stjórnvöld felli árlega. Það  endurspegli þá staðreynd að stjórnvöld haldi fast í þá leynd sem ríki um fjölda aftaka í landinu, en Kína flokkar flestar upplýsingar sem tengjast dauðarefsingunni sem „ríkisleyndarmál“.

Engar upplýsingar um dauðarefsingar sem tengjast fíkniefnaglæpum og hryðjuverkum

Amnesty International fann opinberan fréttapistil þar sem gert er grein fyrir aftökum 931 einstaklinga á árunum 2014 og 2016, sem sé þó aðeins brot af heildarfjölda aftaka. Einungis 85 þeirra er hins vegar getið í gagnasafni ríkisins á netinu.

Í gagnasafninu sé heldur ekki að finna upplýsingar um erlenda ríkisborgara sem hlotið hafa dauðadóm í Kína vegna fíkniefnabrota, þrátt fyrir að þarlendir fjölmiðlar hafi fjallað um a.m.k. 11 slíkar. Upplýsingar skorti sömuleiðis um fjölda dauðarefsingamála sem tengjast „hryðjuverkum“ og „fíkniefnaglæpum“.

„Kína er sér á parti í samfélagi þjóða þegar kemur að dauðarefsingunni, úr takti við alþjóðleg mannréttindaviðmið og fer þvert gegn ítrekuðum tilmælum Sameinuðu Þjóðanna um að greina frá fjölda einstaklinga sem teknir eru af lífi í landinu, sagði Shetty.

Gasklefinn sem nýttur er fyrir aftökur í Florence fangelsinu í …
Gasklefinn sem nýttur er fyrir aftökur í Florence fangelsinu í nágrenni Phoenix í Arizona í Bandaríkjunum. MIKE FIALA

Aftökufjöldi í Víetnam reiðarslag

Þá leiða nýjar rannsóknir í ljós að mun meira er um aftökur  í Malasíu og Víetnam er mun meira en áður var talið. Upplýsingar frá Víetnam, sem fjölmiðlar landsins birtu í fyrsta sinn í febrúar sl., sýna að því hefur verið leynt að landið er í þriðja sæti yfir þau ríki sem tekið hafa flesta af lífi undanfarin þrjú ár. Frá 6. ágúst 2013 til 30. júní 2016 voru 429 einstaklingar teknir af lífi í Víetnam. Aðeins Kína og Íran tóku fleiri af lífi á tímabilinu.

„Umfang aftakna í Víetnam á undaförnum árum er sannarlega mikið reiðarslag,“ sagði Shetty. „Við hljótum að spyrja okkur að því hversu margir til viðbótar hafa þurft að sæta dauðarefsingunni án þess að heimurinn viti af því.“

Svipuð leynd ríkir í Malasíu þar sem þrýstingur frá þinginu árið 2016 leiddi til opinberunar á því að rúmlega eitt þúsund manns eru á dauðadeild, sem er mun meira en talið var. Níu manns voru teknir af lífið þar í landi í fyrra.  

2.832 á dauðadeild í Bandaríkjunum

Bandaríkin eru, í fyrsta sinn frá árinu 2006 og í annað skipti frá árinu 1991, ekki lengur meðal þeirra fimm ríkja sem taka flesta af lífi. Aftökum í landinu hefur fækkað á hverju ári frá 2009, fyrir utan 2012 þegar fjöldinn stóð í stað. 2.832 einstaklingar eru þó enn á dauðadeild í Bandaríkjunum.

Í skýrslu Amnesty segir að umræðan um dauðarefsingu sé klárlega að breytast í Bandaríkjunum, sem skýrist að hluta útaf málshöfðun gegn reglum um banvæna sprautugjöf. Aftökum kunni þó að fjölga aftur á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert