Fyrirskipaði loftárás í eftirréttinum

Donald Trump og Xi Jinping.
Donald Trump og Xi Jinping. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist hafa gefið fyrirskipun um að hefja loftárásir á Sýrland á meðan hann var að borða eftirrétt með Xi Jinping, leiðtoga Kína.

„Við höfðum lokið við kvöldverðinn og vorum að borða eftirrétt. Við vorum að borða alveg hreint yndislega súkkulaðiköku og Xi forseti naut hennar mjög,“ sagði Trump í viðtali við sjónvarpsstöð Fox Business.

„Ég fékk þau skilaboð frá hershöfðingjunum að skipin væru tilbúin og hvað gerir maður svo?,“ sagði Trump. „Við vorum ákveðin í að gera þetta, þannig að eldflaugarnar voru sendar af stað.

„Ég sagði: „Herra forseti, leyfðu mér að útskýra svolítið fyrir þér“. Þetta var á meðan við vorum að borða eftirréttinn. „Við vorum að skjóta 59 flugskeytum“,“ sagði Trump.

Hann bætti við að Xi hafi „beðið í tíu sekúndur og svo beðið túlkinn sinn um að endurtaka þetta. Mér fannst það ekki vita á gott“.

Trump sagði þvínæst að Xi hafði svarað þannig að „sá sem væri svo grimmur að nota efnavopn gegn litlum börnum, þá væri þetta í lagi“. „Honum fannst þetta í lagi.“

Trump var að taka á móti Xi á Flórída þegar Bandaríkjamenn ákváðu að ráðast á sýrlenska herstöð vegna meintrar efnavopnaárásar sýrlenskra stjórnvalda þar sem 87 fórust, þar á meðal fjöldi barna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert