Hafði netárás áhrif á Brexit kosningaþáttöku?

Svo nefndi DDos árás kann að hafa valdið því að …
Svo nefndi DDos árás kann að hafa valdið því að tugir þúsunda kjósenda skráðu sig ekki. AFP

Vera kann að Rússar eða Kínverjar hafi átt þátt í því að vefsíða þar sem kjósendur skráðu sig til þess að geta kosið um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu hrundi. Þetta var niðurstaða breskrar þingnefndar sem rannsakaði málið. Í skýrslur um málið er þó ekki gefið upp hver hafi átt sök að máli, en sagt að bæði Rússar og Kínverja hafi notað svipaðar aðferðir við netárásir.

Skráningarsíðan hrundi 7. júní í fyrra, innan við tveimur tímum áður en skráningafresturinn rann út. Á þeim tíma sögðu stjórnvöld að síðan hefði hrunið vegna álags og var skráningafresturinn því framlengdur, en rúmlega 500.000 kjósendur reyndu að skrá sig þann dag. Eru líkur taldar á að tugir þúsunda kjósenda hafi ekki skráð sig af því að síðan hrundi.

Hrundi eftir DDoS árás

Í skýrslu þingnefndarinnar er hins vegar nú greint frá því að ýmislegt bendi til þess að ráðist hafi verið á síðuna. Fjöldi tölva sem voru smitaðar af tölvuveirum, hafi verið notaðar til að gera svo nefnda DDoS árás á síðuna.

Bernard Jenkin, þingmaður Íhaldsflokksins og einn af stuðningsmönnum útgöngu úr ESB, sagði í samtali við BBC að engar öruggar sannanir væru fyrir því að að árás hefði verið gerð, en að sá möguleiki sé engu að síður fyrir hendi að hrun síðunnar megi rekja til DDoS árásar.  

Ástæður Camerons sagðar vafasamar

Nefndin gagnrýndi einnig „vafasamar“ ástæður David Camerons, þáverandi forsætisráðherra, fyrir að boða til þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Sagði hún atkvæðagreiðslunni hafa verið ætlað að þagga niður í óvelkominni umræðu.

Hvatti nefndin því næst ríkisstjórnir framtíðar til að íhuga málið vandlega áður en þær lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeild mál, sérstaklega ef að stjórnin væri ekki tilbúinn að fylgja eftir niðurstöðu sem henni líkaði ekki.

Í skýrslunni kemur fram að ekki sé talið að möguleg netárás hafi haft á áhrif á kosningarnar sjálfar eða talningu atkvæða. Hins vegar að læra verði af þessu og koma á fót nýrri netöryggismiðstöð sem fylgist með mögulegum netárásum sem ætlað sé að hafa áhrif á kosningar.

Túlkun á tölvuglæpum ólík

Sú túlkun stjórnvalda í Bretlandi og Bandaríkjunum að tölvuglæpir séu aðeins tæknileg vandamál sé gjörólík þeim skilningi á fjöldasálfræði sem Rússar og Kínverjar beiti við þessar árásir. Árás eins og þessi geti haft þau áhrif að fjöldi væntanlegra kjósenda hætti við að skrá sig, af því að þeir komast ekki inn á síðuna þegar þeir ætla sér.

Það sé því full ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af hugsanlegum erlendum áhrifum á atkvæðagreiðsluna.

Rússar hafa verið sakaðir um að hafa átt við forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í fyrra og hafa Þjóðverjar og Frakkar lýst yfir áhyggjum að þeir muni blanda sér í væntanlegar kosningar í þeim löndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert